Umhverfistofnun - Logo

Geysissvæðið

Geysissvæðið í Haukadal var friðlýst sem náttúruvætti þann 17. júní 2020.

Geysissvæðið er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar enda eitt fárra sem þekkt var í árhundruð. Fjölmargir hverir og laugar eru á svæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir. Á svæðinu er einnig hverahrúður á stóru samfelldu svæði. Örnefnið Geysir hefur gefið goshverum nafn á erlendum tungumálum auk þess sem hverahrúður er oft kallað „geyserite“. Upp af hverasvæðinu rís Laugarfell (187 m) sem er innskot úr líparíti þar sem ýmsar jarðmyndanir er að finna. Á því svæði sem tillagan nær til er að finna plöntutegundina laugadeplu sem skráð er á válista sem tegund í nokkurri hættu. Þá er einnig að finna menningarminjar innan svæðisins sem vitna um mannvistir fyrr á tímum, m.a. konungssteina sem eru minjar um heimsóknir þriggja konunga danska ríkisins til Íslands.Markmiðið með friðlýsingu náttúruvættisins er að stuðla að varðveislu sérstæðra jarðmyndana, hvera, örvera og sérstæðs gróðurs á hverasvæðinu sem er einstæður á lands- og heimsmælikvarða. Markmið friðlýsingarinnar er jafnframt að tryggja að svæðið nýtist til fræðslu og vísindarannsókna en fræðslu og vísindagildi svæðisins er hátt á lands- og alþjóðavísu. Með friðlýsingunni er stuðlað að því að svæðið nýtist til útivistar og ferðaþjónustu til framtíðar og sé í stakk búið til að taka á móti þeim fjölda gesta sem sækja svæðið heim á ári hverju. Þá er einnig stuðlað að því að náttúrufar sem raskað hefur verið verði endurheimt og það fært til fyrra horfs eins og unnt er.

Náttúruvættið er 1,2 km2 að stærð. 

Önnur tengd skjöl: