Viðmið vegna hauggass

Viðmið um hvenær krafist er söfnunar hauggass á urðunarstöðum

Að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins hefur Umhverfisstofnun útbúið viðmið um hvenær krafist er söfnunar hauggass á urðunarstöðum.  

Felast viðmiðin í mati á því hvort urðaður sé lífrænn úrgangur eða ekki og fyrir þá staði sem urða lífrænan úrgang felast þau í mati á því hvort tæknilega gerlegt sé að safna hauggasinu og brenna það.  Við það mat er urðunarstöðum skipt í tvo stærðarflokka og þurfa rekstraraðilar stærri staðanna að reikna út magn þess metans sem myndast á ári.  Eiga útreikningarnir að byggja á erlendu líkani, IPCC 2006, sem Umhverfisstofnun hefur staðfært. Leiðbeiningar um notkun líkansins eru því hluti af viðmiðunum.

Við gerð viðmiðanna hafði Umhverfisstofnun hliðsjón af sambærilegum viðmiðum sem sett hafa verið í Svíþjóð og í öðrum Evrópulöndum. Stofnunin hafði einnig samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga, auk þess að halda opinn kynningarfund um drög að viðmiðunum þann 16. október 2012.