Teigarhorn

Afhverju var svæðið friðlýst?

Teigarhorn var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 og sú friðlýsing endurnýjuð 15. apríl 2013 en svæðið einn þekktasti fundarstaður geislasteina (zeólíta) í heimi. Flest stærri söfn munu eiga eintök þaðan. Geislasteinarnir eru í klettum og sjávarhömrum á Teigarhorni og veðrast fram öðru hverju. Óviðkomandi er óheimilt að hrófla við jarðmyndunum. Teigarhorn er þekktast fyrir geislasteinategundirnar skólesít, stilbít, epistilbít, analsím og heulandít.

Markmið friðlýsingarinnar eða varðveita og viðhalda náttúrulegu ástandi svæðisins m.t.t. þeirra jarðlaga sem eru ríka af geislasteinum.

Jörðin Teigarhorn hlaut einnig friðlýsingu 15. apríl 2013 sem fólkvangur. Jörðin Teigarhorn er þekkt fyrir jarðmyndanir og atvinnu- og menningarsögu. Innan marka jarðarinnar er Weywadthús sem byggt var af Níels P.E.Weywadt sem var faktor í verslun Örums og Wulff á Djúpavogi. Á Teigarhorni var starfrækt ljósmyndastofa Nicoline Weywadt sem var fyrst kvenna til að nema ljósmyndun á Íslandi, en hún lauk námi frá Danmörku árið 1872. Einnig er innan marka fólkvangsins náttúruvættið á Teigarhorni sem friðlýst er vegna geislasteina (Zeólíta) sem þar eru. Markmið með friðlýsingu jarðarinnar er að tryggja útivistarsvæði í fögru umhverfi þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast sérstakri náttúru svæðisins og sögu jarðarinnar Teigarhorns.

Fólkvangurinn er 2010 ha að stærð.

Markmið með friðlýsingu jarðarinnar er að tryggja útivistarsvæði í fögru umhverfi þar sem gestum gefst tækifæri á að kynnast sérstakri náttúru svæðisins og sögu jarðarinnar Teigarhorns.

Hvar er Teigarhorn?

 Teigarhorn er rétt hjá Djúpavogi við þjóðveg 1 . Stærð náttúruvættisins er 208,8 ha.

Hvað er áhugavert?

Breskur jarðfræðingur að nafni G.P.L. Walker rannsakaði geislasteina og aðrar holufyllingar á Austurlandi og kortlagði dreifingu þeirra. Walker sýndi fram á að ólíkar gerðir geislasteina raða sér í sem næst lárétt belti og er fjarlægð þeirra mismunandi frá upphaflegu yfirborði landsins. Rannsóknir Walkers á Austfjörðum hafa m.a. leitt í ljós að talið er að um 1500 m hafi rofist ofan af blágrýtismynduninni og landið risið vegna flotjafnvægis. Þessar aðstæður hafa leitt til þess að holufyllingar sem mynduðust djúpt í jörðu hafa komið í ljós á yfirborði.
Geislasteinar eða zeólítar eru mjög algengir sem holufyllingar í bergi hér á landi og er Ísland þekkt á alþjóðavísu fyrir geislasteina. Geislasteinar eru jafnan hvítir eða glærir að lit en stundum litaðir af aðkomuefnum. Geislasteinar eru natríum, kalíum og/eða kalsíum- álsiliköt og innihalda laust bundið vatn. Alþjóðaheitið zeolit er grískt að uppruna (zeo-líþos) og þýðir suðusteinn, en við glæðingu geislasteina sjóða þeir eða freyða.

Geislasteinar (zeólítar) eru stundum greindir eftir lögun þ.e. eftir því hvort þeir eru geislóttir (stöngullaga), plötulaga (blaðlaga) eða kubbalaga (teningslaga). Skólesít er dæmi um geislótta lögun, heulandít um plötulaga kristalla og kabasít er dæmi um kubbalaga lögun. Kristallagerð geislasteina er fjölbreytileg og eru um 20 tegundir þekktar hér á landi. Greining geislasteina til tegundar eftir útliti getur verið erfið þar sem kristalformið er líkt og kristallar oft svo fíngerðir að nauðsynlegt er að greina þá í smásjá.

Weyvadt hús á Teigarhorni er friðlýst ásamt upphaflegu innbúi samkvæmt þjóðminjalögum. Húsið sem er afar veglegt lét Níels Weyvadt kaupmaður byggja á árunum 1880-81. Sérstaða hússins sem er undir dönskum áhrifum byggir m.a. á því að útveggir og þak var upphaflega klætt pappa en það var afar fátítt hér á landi á byggingartíma hússins. Undir húsinu er steinhlaðinn kjallari, portbyggð hæð ofan á jarðhæðinni og geymsluloft í risi. Grunnflötur hússins er um 65 fermetrar. Þjóðminjasafn Íslands tók við vörslu hússins árið 1992, en búið var í húsinu fram til ársins 1988 eða í rúm 100 ár. Niels Peter Emil Weyvadt (1814-1883) verslunarmaður við Djúpavog átti fjölda barna og næstelst þeirra var Nicoline (1848-1921). Hún var fyrst íslenskra kvenna sem lærði ljósmyndun en jafnframt kynnti hún sér steinafræði. Áhugi Nicoline á steinafræði hefur vafalítið verið vegna fjölbreytileika og fjölda geislasteina á Teigarhorni.

Nicoline tók við búinu á Teigarhorni eftir föður sinn og sinnti jafnframt ljósmyndun og til þess að starfa við iðn sína lét hún reisa ljósmyndaskúr við húsið. Nicoline Weyvadt var talin einn snjallasti ljósmyndari landsins, en plötusafn hennar er varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands.

Hansína Regína Björnsdóttir (1884-1973) fósturdóttir og frænka Nicoline lærði ljósmyndun hjá henni og tók við búinu á Teigarhorni.

Aðgengi

Gestir þurfa að hafa í huga að hvergi má raska jarðmyndunum og bannað er að hrófla við steintegundum eða flytja þær út af svæðinu.

Svæði í hættu

Svæðið er á appelsínugula listanum

Auglýsing nr. 518/1975 í Stjórnartíðindum B.

Styrkleikar

Teigarhorn er einn þekktasti fundarstaður geislasteina (e. zeolite) í heimi. Geislasteinar finnast þar í klettum og sjávarhömrum þar sem þeir losna úr berginu við veðrun. Svæðið dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna enda víða getið í ferðahandbókum. Landvörður hefur starfað á svæðinu sumarið 2013 á vegum Umhverfisstofnunar og verður á svæðinu sumarið 2014 á vegum Djúpavogshrepps með samningi við Umhverfisstofnun. Íslenska ríkið festi kaup á jörðinni árið 2013 og stækkaði í framhaldi hið friðlýsta náttúruvætti á Teigarhorni og friðlýsti aðra hluta jarðarinnar sem fólkvang.

Veikleikar

Jarðmyndanir á svæðinu eru viðkvæmar fyrir raski. Enn ber á því að steinum sé stolið af svæðinu, bæði vegna skorts á meðvitund um verndargildi sem og af einbeittum brotavilja. Berg veðrast hratt við ströndina og er laust í sér. Auðvelt og freistandi er fyrir fólk að snerta við steinflögum í bergstöflum og þar með hrófla við geislasteinum í leiðinni og freistast síðan til að taka og/eða hrófla meira. Ekki er trygg landvarsla allt árið

Ógnir 

  • Aukinn fjöldi ferðamanna fer um svæðið og margir reyna að hafa steina með sér á brott. 
  • Rof er víða við klettabelti og við ströndina 
  • Traðk myndar gönguleiðir á viðkvæmum stöðum 
  • Hrunhætta. 

 Tækifæri 

  • Mikil þörf er á vörslu og eftirliti með svæðinu allt árið 
  • Gerð verndaráætlunar og deiliskipulags. 
  • Auka má fræðslu og upplýsingagjöf á svæðinu, t.d. með skiltum.
  • Gerð greinilegra stíga og merkinga t.d. niður í fjöru þar sem bergkristal er að finna 
  • Auka þarf fræðslu og upplýsingagjöf, m.a. með skiltum á svæðinu. 
  • Göngustígagerð.