Umhverfistofnun - Logo

Losun þrávirkra lífrænna efna (POPs)

Photo by Jeremy Goldberg on Unsplash

Á Íslandi losna þrávirk lífræn efni (POP) aðallega við bruna á úrgangi, bruna á eldsneyti í fiskiskipum og vegna framleiðsluiðnaðar. Ísland hefur skuldbundið sig til að draga úr og með tímanum hætta losun á eftirfarandi þrávirkum lífrænum efnum:

 • Díoxín/fúrön – PCDD/PCDF
 • Fjölhringja arómatísk vetniskolefni – PAH4
  • B(a)p – Benzo(a)pyrene 
  • B(b)f – Benzo(b)fluoranthene
  • B(k)f – Benxo(k)fluoranthene
  • IPy – Indeno (1,2,3-cd)pyrene
 • Hexaklóróbensen – HCB
 • Pólíklórbífenýlsambönd – PCBs 

Dregið hefur verulega úr losun Íslands á díoxíni, PAH4, HCB og PCB frá árinu 1990.

 

Díoxín

PAH4

HCB 

PCB 

Ár

[g I-TEQ]

[kg]

[g]

[g]

1990

10,72

594

151

301

2019

0,46

87

72

32

Breyting

-96%

-85%

-53%

-89%

 

Díoxín/fúran (PCDD/PCDF)

Losun á díoxíni/fúrani er nú að mestu vegna eldsvoða og brenna. Árið 1990 var uppsprettan fyrst og fremst brennsla á úrgangi. Dregið hefur talsvert úr þeirri losun frá 1990. Ástæðan sú að mörgum opnum og eldri sorpbrennslum hefur verið lokað og reglur um sorpbrennslu hafa verið hertar.

 

Fjölhringja arómatísk vetniskolefni – PAH4

Losun á PAH4 er nú aðallega frá málmiðnaði, brennslu og opnum bruna á úrgangi og vegasamgöngum. Árið 1990 var uppsprettan mestmegnis frá opinni brennslu á úrgangi. Losun PAH4 hefur dregist mikið saman frá 1990. Samdráttinn má að mestu rekja til fækkunar sorpbrennslustöðva og hertari reglna um sorpbrennslu.

 

Hexaklóróbensen – HCB

Losun á HCB er nú aðallega vegna sorpbrennslu, fiskiskipa og málmiðnaðar. Árið 1990 var losunin einkum vegna opinnar brennslu á sorpi. Frá 1993-2013 var að auki losun vegna sorpbrennslu til húshitunar. Dregið hefur úr losun á PAH4 frá 1990. Samdráttinn má að mestu rekja til fækkunar sorpbrennslustöðva og hertari reglna um sorpbrennslu. Losun HCB hefur enn ekki verið metin frá öllum uppsprettum og skal því taka tölum um heildarlosun með fyrirvara.

 

Pólíklórbífenýlsambönd – PCB

Losun á PCB er nú einkum vegna fiskiskipa og brennslu og opnum bruna á úrgangi. Árið 1990 var losunin að mestu vegna opins bruna á úrgangi og vegna eldsneytisbruna í framleiðsluiðnaði. Frá 1993-2013 var að auki losun vegna sorpbrennslu til húshitunar. Dregið hefur talsvert úr losun undanfarna áratugi. Ástæðan sú að mörgum opnum og eldri sorpbrennslum hefur verið lokað og reglur um sorpbrennslu hafa verið hertar. Losun PCB hefur enn ekki verið metin frá öllum uppsprettum og skal því taka tölum um heildarlosun með fyrirvara.


Ítarlegar upplýsingar um losun loftmengunarefna á Íslandi síðan 1990 má nálgast í nýjustu landsskýrslu um losun loftmengunarefna á Íslandi sem falla undir LRTAP samninginn (Informative Inventory Report).