Álag á vatn

Álag á vatn getur verið af ýmsum toga og haft marvíslegar afleiðingar fyrir vistkerfi jarðar. Umsvif manna geta valdið álagi á ferskvatn og strandsjó t.d álag frá þéttbýli og má þar helst nefna álag vegna fráveitu  og ýmiskonar efnamengun. Jafnframt skapast álag á vatn í tengslum við landbúnað og iðnað, rotþrær, framræslu lands, áburðarnotkun, dreifðar byggðir og frístundabyggðir.

Gjarnan er í þessu samhengi rætt um punktlosun og dreifða losun. Með punktlosun er átt við afmarkaða uppsprettu mengunar s.s. útrásarop fráveitu frá þéttbýli eða starfsleyfisskyldri starfsemi. Dreifð losun í vatn er hins vegar losun sem ekki er hægt að afmarka á ákveðnum stað s.s. frá landbúnaði eða dreifðri byggð, auk óbeinnar losunar t.d. af völdum afrennslis af þéttum flötum s.s. húsþökum og götum í þéttbýlum. Álag á vatn getur jafnframt verið vatnsformfræðilegt álag  t.d. breytingar á rennsli straumvatns s.s. vegna vatnsaflsvirkjana og á strandlengjum vegna hafna, landfyllinga og þverana fjarða. Álag á vatn getur haft neikvæð áhrif með því að rýra notagildi vatns eða breyta efna- og eðlisþáttum og lífríki vatns.

Á Íslandi er unnið að innleiðingu vatnatilskipunar. undir heitinu „Stjórn vatnamála “. Umhverfisstofnun fer með umsjón innleiðingarinnar en meginmarkmið tilskipunarinnar er að stuðla að verndun vatns og vistkerfa þess og þannig hafa bein áhrif á að minnka álag á vatn.  Samkvæmt tilskipuninni er markmið allra Evrópulanda að yfirborðsvatn og grunnvatn sé í  viðvarandi góðu ástandi.