Gullfoss

Sjáðu þrívíddarkort af svæðinu.

Afhverju var Gullfoss friðlýstur?

Gullfoss var friðlýstur árið 1979 og var markmiðið með friðlýsingu Gullfoss að friða fossinn og gljúfrið neðan hans og leyfa fólki að njóta þessara náttúruundra.  Lífríki svæðisins og gróður njóta líka friðunar. Tilgangur með friðlýsingu lands er oft sá að varðveita sérkennilega eða fallega náttúru til að fólk geti notið hennar um ókomna tíð. Mikilvægt hlutverk friðlýstra svæða er einnig að vera griðastaður sjaldgæfra tegunda plantna og dýra sem annars gætu horfið, og að friðlýstum svæðum gefst ómetanlegt tækifæri til að skoða náttúruna, læra um hana og rannsaka hana í samanburði við svæði sem nýtt eru á hefðbundinn hátt.

Á mælikvarða jarðsögunnar er saga mannsins í náttúrunni aðeins  örskotsstund.  Hann hefur þó með lífsháttum sínum breytt umhverfi sínu mikið, oft með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.  Á friðlýstum náttúrusvæðum er reynt að draga úr áhrifum  mannsins, halda mannvirkjagerð í lágmarki og raska ekki landi, jarðmyndunum eða lífríki.

Hvar er Gullfoss?

Gullfoss er í Hvítá en Sogið og Ölfusá tengja fjall og fjöru, jökla og haf, Kerlingarfjöll, Gullfoss, Geysi, Skálholt, Ármannsfell, Þingvelli og Eyrarbakka.

Stærð friðlýsta svæðisins er 154,9 ha.

Gullfossgljúfur

Gullfossgljúfur er um 2,5 km að lengd og nær um 70 metra dýpt. Kenning er uppi um að það hafi að mestu leyti myndast í miklum flóðum, jökulhlaupum, í lok ísaldar.

Ísaldarlok. Sjór nær langt inn á land. Samfelldur jökull er yfir hálendinu. Áin fellur fram af hálendisbrúninni og hefur ekki myndað gljúfur.

Jökullinn hopar og land rís úr sæ. Undir jöklinum og við jaðar hans safnast mikið vatn. Um tíma heftir jökullinn framrás vatnsins en svo brýst það fram.

Í jökulhlaupi getur álíka mikið vatn ruðst niður farveg árinnar á einum sólarhring og annars rennur þar á fimm árum en hlaupið hefur margfalt meiri rofmátt.

Mikið gljúfur, hvammar í gljúfurbörmum, stór á sýnist smá þar sem hún hlykkjast um grjóteyrar á botni gljúfursins. Slík geta verið ummerki stórra jökulhlaupa.

Gullfoss er sprungufoss en vatnið hefur leitað niður í sprungu í hraunlaginu og grafið sig eftir henni.

Gullfoss

Gullfoss er í raun tveir fossar, efri fossinn er 11 metrar, neðri fossinn er 20 metrar. Jarðlögin sem fossinn fellur fram af eru öll mynduð á hlýskeiði ísaldar. Vatnsmagn um Gullfoss er að meðaltali 109 rúmmetrar a sekúndu.

Gullfoss er í tveim þrepum, alls um 32 m að hæð. Í brúnum beggja þrepanna sem grágrýtislög, en undir þeim þykk setlög. Efra grágrýtislagið er í gljúfrinu neðan fossins um 10 m að þykkt en í brúninni aðeins 1-4 m að þykkt. Botnskriðið í Hvítá hefur þannig sorfið alldjúpa rás eða farveg í grágrýtið. Neðra grágrýtislagið er 12,5 m.

Milli grágrýtislaganna er nær 10 m þykkt setlag, sem gert er úr hnullungabergi, leirsteini og efst úr völubergi. Setlögin eru allvel samlímd nema völubergslagið.

Undir neðra grágrýtislaginu er þykkt völubergslag. Sjáanleg þykkt þess í fossinum er 8m, en fremst í gljúfrinu er það 40 m þykkt. Í völubergslaginu eru víða losaralegar malarlinsur, sem vatnið þvær auðveldlega út úr berginu og eiga þær einkum sök á hröðum undangreftri í fossinum.

Í mestu flóðum sem mælst hafa hefur vatnsmagnið orðið 2000 rúmmetrar á sekúndu. Á sumrin er rennsli um fossinn 130 rúmmetrar á sekúndu.

Menn höfðu lengi áhuga á að nýta vatnsorkuna sem býr í Gullfossi og margar áætlanir hafa verið gerðar um virkjun Hvítár.

Sigurður Þórarinsson, jarðfræðingur


Því er nú mjög á lofti haldið, og vissulega með veigamiklum rökum, að í fossum landsins búi nokkuð af framtíð okkar þjóðar, er byggist á þeim verðmætum, sem mæld eru í kílówattstundum. En þar við liggur einnig brot af framtíðarhamingju þjóðarinnar, að hún gleymi því ekki, að í fossum landsins búa einnig verðmæti, sem ekki verða metin til fjár, en mælast í unaðsstundum.

Úr fjölriti nr. 2. Fossar á Íslandi, (1978)

Menningarminjar

Sigríður Tómasdóttir í Brattholti

Sigríður var fædd í Brattholti 24. febrúar 1871 og bjó þar alla sína ævi. Brattholt var afskekkt, þangað komu helst ferðalangar á leið að Gullfossi. Sigríður og systur hennar fylgdu oft gestum að Gullfossi og þær lögðu fyrsta stíginn niður að fossinum. Viðhorf fólks, sem oft hafði gert sér langa ferð til að skoða Gullfoss og njóta hans, hljóta að hafa haft áhrif á Sigríði. Sigríður fór ekki í skóla en var vel lesin. Hún gekk að öllum verkum bæði úti og inni. Sigríður var listræn, góður teiknari, mikil hannyrðakona og teiknaði og saumaði myndir af blómum og dýrum. Sigríður fór oft í löng ferðalög, bæði í smalamennsku til fjalla og í kaupstaðarferðir, ýmist gangandi eða á hestum.

Sigríður lést í Hafnarfirði árið 1957 hátt á 87. aldursári og var jarðsett í Haukadal.

Sigríðar er fyrst og fremst minnst fyrir afskipti af málefnum Gullfoss. Henni var reistur minnisvarði við fossinn árið 1978.

Baráttan um fossinn

Um aldamótin 1900 fóru menn að sækjast eftir yfirráðum fallvatna hérlendis til raforkuframleiðslu og iðnaðar, oft i umboði erlendra fyrirtækja.

Snemma árs 1907 falaðist Englendingur nokkur eftir Gullfossi. Hann bauð 50.000 krónur. Það jafngilti fimmtíuföldu brunabótamati hússins í Brattholti.

„Ég sel ekki vin minn.“ sagði Tómas í Brattholti, faðir Sigríðar. Haustið 1907 voru samþykkt lög um að einungis menn og félög með heimili á Íslandi gætu eignast fossa landsins nema til kæmu sérstök leyfi og skilyrði. Lögin urðu til þess að menn uggðu lítt að sér en fossabröskurum tókst að komast yfir marga stærstu fossa og mestu fallvötn landsins þrátt fyrir lögin. Þegar Gullfoss féll í hendur manna sem voru umboðsmenn erlendra aðila reis Sigríður, bóndadóttirin í Brattholti, öndverð gegn nokkrum ríkustu og voldugustu mönnum landsins til að fá samninginn um Gullfoss ógiltan.

Sigríður lagði oft nótt við dag til að fylgja máli sínu eftir. Hún fór í langferðir yfir fjallvegi og óð stórár hvenær árs sem var og í Reykjavik gekk hún á milli embættismanna. Allt kom fyrir ekki. Dómur féll Brattholtsfjölskyldunni í óhag.

Árið 1928 hætti leigan fyrir fossinn að berast og gekk þá leigusamningurinn til baka.


Sveinn Björnsson, forseti Íslands 1944-1952:

Nú hófst barátta Sigríðar um að varðveita Gullfoss, og leitaði hún nú til mín sem lögfræðings. Vildi hún reyna að fá ónýtta samninga þá, er faðir hennar hafði gert. eða kaupa réttindin til baka. Þegar engar tilraunir í þessa átt tókust, tók hún þann kost að fá föður sinn til þess að neita að taka við árlegu gjaldi fyrir leigu á fossinum. En allt kom fyrir ekki, árgjaldið var boðið fram á löglegan hátt. Þá hótaði hún því, að við fyrstu skóflustunguna, sem gerð yrði til virkjunar, mundi hún kasta sér í fossinn og sjá svo, hvort mönnum þætti gæfulegt að halda áfram.

En þessu lauk öllu á annan veg. Erlendu mennirnir, sem náð höfðu leiguréttinum á Gullfossi, misstu smátt og smátt áhuga á vatnsvirkjun hér á landi. Þar kom, að árgjöldin hættu að greiðast. Lauk því svo, að leigusamningurinn féll úr gildi. Nú hefir ríkissjóður eignast Gullfoss, að því er mér skilst í því skyni að varaveita hann, eins og hann er, sem fagurt náttúrufyrirbrigði. Og sennilega mun okkur íslendingum aldrei fara svo aftur, að almenningsálitið rísi ekki upp á móti því, að farið verði að hrófla við Gullfossi af manna höndum. svo eindregið, að ekki þyki fært. Mun þá barátta Sigríðar í Brattholti ekki hafa verið alveg til ónýtis, og hún á það skilið, að hennar sé jafnan minnst fyrir landvörn sína.

Einar Guðmundsson í Brattholti


Einar var fæddur 4. nóvember 1904 og var tekinn í fóstur í Brattholti ungur drengur. Einar keypti Brattholt af Sigríði Tómasdóttur árið 1939. Íslenska ríkið keypti Gullfoss af Einari og eigendum austan árinnar árið 1945. Einar gaf ríkissjóði landið næst Hvítá og Gullfossi árið 1974.

Einar skrifaði Náttúruverndarráði:


Náttúruverndarráð!

Samkvæmt Náttúruminjaskrá er friðlýsing Gullfoss og umhverfis hans í undirbúningi. Í sambandi við þetta vil ég eigandi að jörðinni Brattholti, sem land á næst Gullfossi taka fram eftirfarandi: Ég er reiðubúinn að afhenda til friðunar af landi mínu með Hvítá svo mikið, sem ráðið telur æskilegt að friðlýst sé og samkomulag verður um.

Ef Náttúruverndarráð vill sinna þessu óska ég eftir svari, sem fyrst.

Virðingarfyllst,

Brattholti 15.10. 1975

Einar Guðmundsson

Einar afhenti Náttúruverndarráði hluta Brattholts, 11. desember 1976 án annarra kvaða en að landið yrði girt fyrir árslok 1977, og að það yrði einlega notað í samræmi við anda náttúruverndarlaga. Menntamálaraðherra undirritaði auglýsingu um friðland við Gullfoss 9. mars 1979.

Einar lést 27. september 1985.

Ferð Reynistaðabræðra

Árið 1780 huguðust hjónin að Reynistað í Skagafirði kaupa fé á Suðurlandi en fjárkláði olli því að nær allt fé hafði verið skorið á Norðurlandi. Snemma sumars fór Bjarni sonur þeirra, tvítugur piltur, og ráðsmaður þeirra, Jón Austmann, suður yfir fjöll til fjárkaupa. Undir haust sendu þau hjón einnig suður Einar son sinn, sem aðeins var ellefu ára gamall, og landseta sinn Sigurð Þorsteinsson á Daufá. Áttu þeir að aðstoða við reksturinn norður yfir fjöllin.

Eftir réttir keyptu þeir félagar fjölda fjár í Skaftafellssýslu og lögðu með það sem leið lá vestur á bóginn, yfir Þjórsá og upp Hreppá ásamt fimmta manni, ungum prestsyni, Guðmundi Daðasyni. Þeir urðu seinir fyrir og í lok október lögðu þeir frá byggð norður á Kjöl. Þá var rigning úr suðaustri en snerist brátt í norðanátt og kafald í sveitum Suðurlands en norðan heiða var hríðarveður.

Snemma í desember sendu þau Reynistaðahjón tvo menn suður Kjöl til að grennslast fyrir hvað orðið hefði um bræðurna og fylgdarmenn þeirra. Þegar þeir komu suður á land og fréttu hvenær Reynistaðamenn hefðu lagt á fjöll þótti auðsætt að þeir hefðu orðið úti.

Sumarið 1781 fundust tjöld þeirra bræðra og lík fylgdarmanna þeirra, Sigurðar og Guðmundar, og mikið magn beina kinda og hesta. Heitir þar nú Beinahóll og er í Kjalhrauni rétt við Kjalveg hinn forna. Lík Reynistaðabræðra og Jóns Austmanns fundust ekki og spunnust miklar sögur um að þeim hefði verið rænt til fjár. Atburður þessi vakti mikla athygli, sló óhug á fólk og átti stóran þátt í því að ferðir um Kjöl lögðust nánast af í eina öld.

Í þúsundir ára hefur vatn runnið þessa farvegi, glatt Sigríði í Brattholti með fegurð sinni og mikilleik,ógnað ferðamönnum. fátækum sem ríkum, vætt fætur Ragnheiðar Brynjólfsdóttur, drekkt Jóni Gerrekssyni, Skálholtsbiskupi, hulið dularfullar ókindur.

Hvað er áhugavert?

Gullfoss er einhver nafntogaðasti foss landsins fyrir ógnarmátt sinn og fegurð. Fossinn lætur engan ósnortinn. Hann er tvískiptur. Fellur fyrst fram af 14 m háum stalli, snarbeygir síðan áður en hann fellur af 18 m háum stalli og þverbeygir enn á ný neðst í gljúfrinu. Margir hafa í gegnum tíðina haft áhuga á að beisla þetta afl og lá nærri þegar erlent félag eignaðist fossinn. Sigríður í Brattholti barðist fyrir verndun Gullfoss og hafði sigur að lokum. Hennar er minnst af náttúruunnendum fyrir afrekið.

Vatnasvið Ölfusár er 6100 ferkílómetrar sem er um einn sautjándi hluti Íslands. Á hverri sekúndu skilar hún að meðaltali 440 rúmmetrum af fersku vatni til hafs. Það eru 38 milljónir tonna á sólarhring.

Svæði í hættu

Svæðið er á appelsínugula listanum

Svæðið er friðlýst samkvæmt auglýsingu nr. 141/1979 í Stjórnartíðindum B. 

Styrkleikar

Gullfoss laðar að sér mikinn fjölda ferðamanna og er áætlað að um 70% þeirra ferðamanna sem koma til landsins, heimsæki svæðið. Innviðir hafa verið bættir og styrktir, göngustígar lagaðir og girtir af. Fræðslu um svæðið er miðlað á fræðslustígnum Sigríðarstíg, og víðar, á greinargóðum skiltum. Göngupallar liggur frá bílastæði á neðra plani, fram á útsýnisstað og niður að göngustíg sem liggur að Gullfossi og þar með hefur aðgengi hreyfihamlaðra einnig verið bætt. Árlega er borið í göngustíginn sem liggur niður að Gullfossi og sett í hann dreni. Árið 2013 stóð Umhverfisstofnun fyrir hugmyndasamkeppni um framtíðarhugmyndir um uppbyggingu á Gullfosssvæðinu í samstarfi við Arkitektafélag Íslands, sveitarfélag og landeigendur, með styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamanna. Unnið er samkvæmt vinningstillögu að bætingu innviða og stýringu ferðamanna. Aukið hefur verið við göngupalla og þeir pallar sem voru fyrir hafa verið lagaðir og styrktir. Öryggisúttektir hafa verið unnar á svæðinu þar sem fram komu margar góðar ábendingar hvað varðar öryggi ferðamanna, bæði hvað varðar fallhættu og mögulegt berghrun. 

Gróðursvæði hafa verið girt af til verndar gróðri. Með því að styrkja göngustígakerfi svæðisins og setja upp fleiri fræðsluskilti fyrir ferðamenn hefur tekist að stýra enn frekar umferð um svæðið og færri ganga nú utan stíga og lítur svæðið í heild sinni nú mun betur út þar sem ágangur á náttúru Gullfosssvæðisins er minni en hefur verið. 

Landvarsla hefur verið aukin og er nú stöðug yfir sumarið fram á haust, auk þess sem svæðalandvörður á Suðurlandi hefur reglulega viðkomu þar yfir vetrarmánuðina. 

Eigendur Gullfosskaffis hafa keypt Sigríðarstofu og standsett og ætla að selja þar inn á salernisaðstöðu og litla sýningu.

Veikleikar

Svæðið er oft á tíðum mjög blautt vegna vatnsúða frá fossinum og er því viðkvæmt fyrir ágangi ferðamanna. Svæðið er afar fjölsótt, svo sem fyrr segir. Friðlandið er það fjölsótt að afar mikilvægt er að hafa heilsársstarfsmann á svæðinu til að sjá um málefni þess ásamt Geysi.

Ógnir 

 • Á svæðinu er mikið álag af völdum ferðamannastraums og er mikilvægt að ná vel utan um stýringu ferðamanna. 
 • Svæðið hefur mikið látið á sjá og nokkur mannvirki orðin þreytt. Gróðurþekja er sums staðar rofin. 
 • Tröppur á milli efra og neðra svæðis anna ekki þeim fjölda ferðamanna sem þar fer um. 
 • Vart hefur verið við hagsmunaárekstra innan ferðaþjónustunnar hvað varðar nýtingu svæðisins. 
 • Hætta hefur skapast vegna hálku við mikla vetrarumferð ferðamanna á svæðinu. 
 • Keðja sem sett hefur verið á malargöngustíg niður að fossinum yfir vetrarmánuðina hefur ítrekað verið fjarlægð og hættu þannig boðið heim fyrir gesti svæðisins.
 • Brekkan ofan við stíginn niður að Gullfossi er óstöðug m.t.t. berghruns. 
 • Mun fleiri heimsækja svæðið að vetri til en áður en þá er oft mikil hálka á svæðinu, sem bregðast þarf við. 

 Tækifæri

 • Deiliskipulag hefur verið samþykkt og þarf að framkvæma í takt við það. 
 • Vinna þarf verndaráætlun fyrir svæðið.
 • Halda þarf áfram með viðhald og uppbyggingu svæðisins. Þó mikið hafi verið gert varðandi öryggismál og merkingar þarf þó stöðugt að laga og bæta við. 
 • Aukin landvarsla á svæðinu.