Gönguleiðir

Um verndarsvæðið og nágrenni þess liggja fjölmargar gönguleiðir. Hægt er að kaupa gönguleiðakort í skálanum á Hveravöllum.

Hverasvæðið

Fylgt er göngupöllum sem komið var fyrir til verndar hverasvæðinu og liggja frá eldri skálanum við laugina. Eftir hveraskoðun er hægt að líta á Eyvindartóft og koma í gamla sæluhúsið í jaðri hraunsins. 15-30 mín. Göngupallurinn er með aðgengi fyrir alla.

Eyvindarhellir og Eyvindarrétt

Gengið hjá gamla sæluhúsinu og fylgt stikum að litlu hellisopi í hraunhól, þar er Eyvindarhellir. Þaðan er farið að stórum hraunhól með gjá, sem hlaðið hefur verið fyrir og kallast Eyvindarrétt. 30-45 mín.

Strýtur

Strýtur eru hluti af barmi gígskálarinnar miklu, efst í Kjalhrauni, í 840 m.y.s. Þangað er stikuð gönguleið frá Hveravöllum. 3-4 klst.

Dúfunesfell

730 m hátt fell norðaustan Hveravalla og er af því gott útsýni. Í Landnámu er frásögn af veðreið á Dúfunefsskeiði sem er sunnan fellsins. Af Kjalvegi er um 30 mínútna ganga, en ef gengið er frá Hveravöllum þarf lengri tíma, eða 3-4 klst.

Umhverfis Stélbratt - Þjófadalafjöll

Gengið meðfram kvíslum Þegjandi, norður fyrir Stélbratt og stefnt á Oddnýjarhnjúk í Þjófadalafjöllum, 1.067 m.y.s. Í fjöllunum eru mörg falleg gil. Af Oddnýjarhnjúk er gott útsýni inn yfir Langjökul, 6-8 klst., en gönguna má stytta í 3-4 klst. með því að fara eingöngu umhverfis Stélbratt.

Þjófadalir - Rauðkollur

Á Þröskuld ofan við Þjófadali er jeppaslóði er opnast síðsumars. Athugið að vegna gróðurverndar má alls ekki aka niður í dalina. Margar skemmtilegar gönguleiðir liggja úr Þjófadölum, m.a. upp á brún Þverfells og á Rauðkoll 1.075 m.y.s. Af Rauðkolli er gengt norður og austur eftir fjallshryggnum til baka á þröskuld.

Rjúpnafell og Grettishellir

Gengið austur á Kjalveg hinn forna. Við hann, um 2 km sunnan Rjúpnafells, er stór hraunhóll sem á eru margar vörður, í honum er hellir, opinn í báða enda, nefndur Grettishellir. Af Rjúpnafelli er gott útsýni yfir Kjalarsvæðið. 5-7 klst.

Beinhóll

Alþekkt er slysasaga Reynistaðarbræðra og förunauta þeirra, en þeir urðu úti á Kjalvegi árið 1780. Beinhóll er kenndur við beinaleifar af sauðfé og hestum þeirra sem enn eru á staðnum og á hólnum er minnisvarði um þá. Látið beinaleifar liggja óhreyfðar.
Ekið er inn á merkta jeppaslóð skammt sunnan Fjórðungsöldu (Geirsöldu með hringsjánni) eins langt og komist verður og gengið síðasta spölinn. Farin er sama leið til baka eða gengin varðaða leiðin norður með viðkomu í Grettishelli og sveigt af henni í átt til Hveravalla. 4-5 klst. með göngu til Hveravalla, annars um 2 klst.

Hvítárnes - Hveravellir

Gönguleiðin liggur á milli skála Ferðafélags Íslands, að mestu eftir Kjalvegi hinum forna. Lagt er upp frá Hvítárnesskála, elsta sæluhúsi F.Í. (30 gistipláss). Fyrsti áfangi er að Þverbrekknamúla (20 gistipláss), 4-5 klst. Annar áfangi er í Þjófadali (12 gistipláss), 4-5 klst., og lokaáfanginn er að Hveravöllum, 3-4 klst.

Fylgt er göngupöllum er komið var fyrir til verndar hverasvæðinu og liggja frá eldri skála F.Í. Eftir hveraskoðun er hægt að líta á Eyvindartóft og koma í gamla sæluhúsið í jaðri hraunsins. 15-30 mín.