Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hvað eru ósoneyðandi efni

Ósoneyðandi efni eru manngerðar gastegundir sem framleiddar voru til notkunar í margvíslegum iðnaði og vörum. Eins og nafnið gefur til kynna stuðla efnin að eyðingu ósons, þ.e. ósonlagsins í heiðhvolfinu sem verndar jörðina fyrir skaðlegri útfjólublárri geislun frá sólinni. Ósoneyðandi efnin eru líka gróðurhúsalofttegundir. Í ljósi þessara alvarlegu umhverfisvandamála hafa verið settar reglur á heimsvísu til að draga úr framleiðslu og notkun efnanna. Hér á landi er það reglugerð nr. 970/2013 sem tekur á þessum málaflokki.

Hvað gerir efni ósoneyðandi?

Það sem gerir efni ósoneyðandi er eftirfarandi samspil eiginleika:

  • Þau eru stöðug neðarlega í lofthjúpi jarðar þar sem útfjólublá geislun er lítil og geta því borist hátt í lofthjúpnum án þess að brotna niður.
  • Þegar þau eru komin hátt í lofthjúpinn, þar sem útfjólublá geislun er meiri, á sér stað ljóshvatað niðurbrot efnanna. Við það losnar atóm frá efnunum (gjarnan klóratóm) sem hvata niðurbrot ósons.

Flokkar ósoneyðandi efna og notkun þeirra

Þau efni sem teljast til ósoneyðandi efna skv. reglugerð eru talin upp í I. og II. viðauka við reglugerð (EB) nr. 1005/2009 (þar eru þau kölluð takmörkunarskyld efni). Flest efnin tilheyra einum af eftirfarandi flokkum efnasambanda:

  • Klórflúorkolefnum,
  • halónum,
  • vetnisklórflúorkolefnum eða
  • vetnisbrómflúorkolefnum.

Auk þessara efnaflokka teljast efnasamböndin tetraklórómetan, 1,1,1-tríklóróetan (metýlklóróform), metýlbrómíð og brómóklórómetan til ósoneyðandi efna.

Þeir þrír flokkar ósoneyðandi efna sem voru mest áberandi hér á landi eru:

  • Klórflúorkolefni (CFC) (e. chlorofluorocarbons)

    Lífræn efnasambönd sem innihalda auk kolefnis aðeins klór og flúor. Klórflúorkolefni voru notuð sem kælimiðlar, þrýstiefni í úðabrúsa, þanefni (e. blowing agents) fyrir frauð og sem leysar.

  • Vetnisklórflúorkolefni (HCFC) (e. hydrochlorofluorocarbons)

    Lífræn efnasambönd sem innihalda, auk kolefnis, klór, flúor og vetni. Vetnisklórflúorkolefni voru framleidd til að koma tímabundið í staðinn fyrir klórflúorkolefni á mörgum notkunarsviðum þar sem þau eru ekki jafn öflug við eyðingu ósons. Það var þó ljóst frá upphafi að hætti þyrfti notkun þeirra áður en langt liði.

  • Halónar (e. halons)

    Efnasambönd sem innihalda aðeins kolefni og mismunandi samsetningar halógenanna flúors, klórs og bróms. Þessi efni voru einkum notkuð sem slökkvimiðlar bæði í slökkvitæki og stærri kerfi.