Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Umskipun olíu

Sérstök reglugerð hefur verið sett um umskipun olíu á rúmsjó og skal fara að ákvæðum hennar sé ætlunin að umskipa olíu, sjá ákvæði reglugerðar nr. 800/2004 um umskipun olíu á rúmsjó.

Við umskipun olíu á rúmsjó skal gætt fyllsta öryggis og og bera skipstjórar hlutaðeigandi skipa ábyrgð á því að umskipun sé í samræmi við gildandi lög og reglur, að réttur búnaður sé fyrir hendi og að áhafnir hafi verið þjálfaðar til þess að framkvæmd verði fumlaus.

Óheimilt er að umskipa olíu á rúmsjó ef hætta er á að umskipun geti misfarist eða óhöpp orðið vegna utanaðkomandi aðstæðna.

Tilkynna ber stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands um sérhverja umskipun olíu á rúmsjó með minnst sex klst. fyrirvara. Í tilkynningu skal tiltaka staðsetningu, kallmerki og nöfn viðkomandi skipa, tímasetningu umskipunar og þann tíma sem áætlað er að umskipun taki. Landhelgisgæsla Íslands skal skrá slíkar tilkynningar og senda Umhverfisstofnun árlega. Telji Landhelgisgæsla Íslands að umskipun olíu geti stofnað lífríkinu í hættu vegna veðurs á svæðinu, ónógs búnaðar eða af öðrum ástæðum er henni í samráði við Umhverfisstofnun heimilt að banna eða stöðva umskipun.

Verði óhapp við umskipun olíu á rúmsjó skal tafarlaust tilkynna um það til stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands í samræmi við viðbragðsáætlun um olíuóhöpp.

Skipstjóri ber ábyrgð á að sérhver umskipun olíu á rúmsjó sé færð í olíudagbók skipsins í samræmi við ákvæði viðauka I við MARPOL-samninginn.

Umskipun olíu er óheimil allt árið á eftirtöldum svæðum, nema með leyfi Umhverfisstofnunar og að fenginni umsögn sjávarútvegsráðuneytisins:
1. Innan svæðis sem afmarkast af neðangreindum hnitum:

 
1.
Frá Gerpi (65°00'N – 13°30'V)
 
2.
64°30'N – 12°00'V
 
3.
63°45'N – 14°00'V
 
4.
63°00'N – 17°00'V
 
5.
63°00'N – 24°00'V
 
6.
65°30'N – 26°30'V
 
7.
66°45'N – 24°00'V
 
8.
Að Straumnesi (66°28'N – 23°08'V)

2. Innan svæðis sem afmarkast af landhelgi Íslands frá Straumnesi austur að Gerpi.

Svæði þar sem umskipun olíu er óheimil nema með sérstöku leyfi stjórnvalda