Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Efni í snyrtivörum

Hvað getum við gert?

  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu þegar það er í boði.
  • Fáum aðstoð við valið og náum í app í símann t.d. QuelProduit, INCI Beauty, Yuka, Good Face Project, Cosmethics sem gefur einkunn fyrir efnainnihald snyrtivörunnar og ásamt fróðleik um efnin.
  • Aukum efnalæsi okkar og lærum að þekkja nokkur efni sem eru varasöm.
  • Takmörkum notkun okkar á ilmefnum hvort sem það eru náttúruleg ilmefni eða manngerð, en þau geta bæði haft óæskileg áhrif á okkur.
  • Einstaklingar sem ganga með barn ættu að sýna varkárni við val á snyrtivörum, ef til vill að minnka notkun á þeim, og forðast vörur með ilmefnum.
  • Fylgjum notkunarleiðbeiningum til að lágmarka hættu á slysum.
  • Höldum notkun á sjampó, sápum og kremum fyrir ung börn í lágmarki. Húð barna er þunn og viðkvæm og eru gjörn á að fá útbrot og exem vegna ertingar.
  • Ekki er gert ráð fyrir notkun aflitunarefna eða hárlita fyrir börn og unglinga undir 16 ára.
  • Ekki er mælt með notkun hárlita eða aflitunarefna fyrir einstaklinga sem ganga með barn eða eru með barn á brjósti.

Almenn umfjöllun

Snyrtivörur eru ómissandi hluti af daglegu lífi og nota flestir nokkrar tegundir á dag t.d. sjampó, tannkrem, svitalyktaeyði, rakakrem og ýmsar sápur. Framleiðendur snyrtivara eru skyldugir til að gefa upp innihaldsefni á umbúðum snyrtivara í röð eftir lækkandi styrk í vörunni. Nafnahefðir geta verið ólíkar fyrir snyrtivörur og fyrir aðrar efnavörur, en í snyrtivörum er t.a.m. notað heitið „aqua“ fyrir vatn og leyfilegt er að nota yfirheitið „parfum“ eða „aroma“ (ilmefni/lyktarefni) fyrir ilmefni sem ekki eru á lista yfir ofnæmisvaldandi ilmefni í stað efnaheita ilmefnanna.

Efnin í snyrtivörum eru margs konar og er þeim bætt út í vegna sérstakra eiginleika þeirra og/eða til að þjóna ákveðnum tilgangi. Ströngustu kröfur varðandi efnainnihald snyrtivara er innan EES en þó eru efni sem geta verið til staðar sem valda ofnæmi eða öðrum óæskilegum áhrifum á heilsu okkar eða umhverfi þar sem rannsóknir á efnum eru mislangt komnar og smám saman eykst þekking á eiginleikum efna og áhrif þeirra á mannslíkamann og umhverfið. Algengt er að rotvarnarefni, ilmefni og efni notuð til hárlitunar geti valdið ofnæmi en það er mjög einstaklingsbundið og því miður ekki alltaf hægt að sjá fyrir/segja til um hverjir eru viðkvæmari fyrir efnunum en aðrir.

Rotvarnarefni

Rotvarnarefni hindra bakteríu- og mygluvöxt og viðhalda gæðum vara í lengri tíma. Sum rotvarnarefni eru skaðleg heilsu manna og umhverfis, en þau eru oft á tíðum ofnæmisvaldandi. Dæmi um rotvarnarefni sem eru takmörkuð í snyrtivörum eru sum paraben vegna innkirtlatruflandi áhrifa þeirra og tríklósan sem er talið geta valdið því að bakteríur verði ónæmar fyrir sýklalyfjum auk þess að vera mjög eitrað lífverum í vatni.

Nánari umfjöllun um paraben.

Nánari umfjöllun um tríklósan.

Ilmefni

Manngerð og náttúruleg ilmefni (t.a.m. ilmkjarnaolíur, e. essential oils) geta valdið snertiofnæmi og ertingu í augum og húð. Þau ilmefni sem eru þekkt sem mögulegir ofnæmisvaldar ber skylda að merkja þau með efnaheiti sínu í stað þess að vera undir yfirheitinu „parfum“ eða „aroma“ í snyrtivörum. Dæmi um slík efni eru t.d.

  • moskus efnasambönd,
  • límónen (e. limonene),
  • línalól (e. linalool), og
  • sítrónellól (e. citronellol).

Sumir geta notað vörur með ilmefnum án vandræða en aðrir geta þróað með sér snertiofnæmi, því miður er ekki hægt að segja til um hverjir eru líklegri til að þróa með sér ofnæmi. Mikilvægt er að sýna varkárni varðandi notkun ilmefna á og í kringum ungabörn þar sem þau eru almennt viðkvæmari en fullorðnir og því er best að kaupa vörur án allra ilmefna.

Nánari umfjöllun um ilmefni.

Vatns- og olíufráhrindandi efni

Vatns- og olíufráhrindandi efnum eru bætt út í sumar snyrtivörur til að hrinda frá bæði vatni og fitu sem er afar eftirsóttur eiginleiki. Slíkur tilgangur hjálpar oft til við að vernda vöruna og viðhalda gæði hennar eða til að láta vöruna vera lengur eftir á húðinni. Efnahópurinn sem hér er verið að fjalla um kallast PFAS og heyra mörg efni undir þann hóp, en efnin geta valdið skaða á heilsu manna og umhverfis.

Notkun nokkurra efna úr efnahópnum hafa verið takmörkuð eða bönnuð en það er aðeins lítið brot þar sem hópurinn inniheldur tugþúsunda efna. Sum þeirra eru talin innkirtlatruflandi, grunuð um að valda krabbameini og aukið líkur á skaða á ónæmiskerfið. PFAS eru þrávirk, brotna lítið sem ekkert niður í umhverfinu, og geta því verið til staðar í þúsundir ára í náttúrunni.

Nánari umfjöllun um PFAS efni.

Fleiri varasöm efni sem geta verið í snyrtivörum

Eins og áður hefur komið fram þá eru margar tegundir efna notaðar í snyrtivörur og hægt væri að hafa umfjöllunina mun lengri. Þess í stað bendum við hér á nokkra efnaflokka sem hafa verið algengir í snyrtivörum en eru að hluta til takmarkaðir.

Bensófenón – vernda m.a. lykt og lit gegn niðurbroti, einnig kallað útbláma sía (e. UV filter).

Síloxön - gera krem smyrjanlegri, innihald kekkjalaust og bera viðbætt lyktarefni á líkamann.

Þalöt - halda ilm í vörum, draga úr sprungumyndun í naglalakki og auðvelda vörum að komast í gegnum húðina og gefa henni raka.

Orðabók um algeng innihaldsefni í snyrtivörum á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnunar Danmerkur.

Snyrtivörureglugerðin - innihaldsefni

Á heimasíðu framkvæmdastjórnar ESB er hægt að fletta upp í leitarglugga hvort einstök efni séu viðurkennd, bönnuð eða hvort ákveðnar reglur eða takmarkanir gilda um efnin. Í niðurstöðum leitar efnis koma fram upplýsingar um efnið með viðauka reglugerðar (EB) nr. 1223/2009 (athygli er vakin á því að listinn yfir viðurkennd innihaldsefni er ekki tæmandi).

Við uppflettingu birtist listi efna í töfluformi og í síðasta dálki kemur fram takmörkun/viðauki/númer. Ef takmörkun á við þá koma fram rómverskir tölustafir fyrir viðauka og tölustafur fyrir númer hvað töluliður í viðaukanum er hægt að finna efnið. En viðaukarnir eru eftirfarandi:

        II. Skrá yfir efni sem eru bönnuð í snyrtivörum

        III. Skrá yfir efni sem snyrtivörur mega ekki innihalda nema samkvæmt settum              takmörkunum og skilyrðum

        IV. Skrá yfir litarefni/litgjafa sem eru leyfð í snyrtivörum

        V. Skrá yfir rotvarnarefni sem eru leyfð í snyrtivörum

        VI. Skrá yfir útblámasíur (UV filters) sem eru leyfðar í snyrtivörum


Tengt efni

Almennt um efni í snyrtivörum á ensku á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (e. ECHA).

Snyrtivörur – vissir þú? á íslensku á heimasíðu verkefnisins efnafræðilega snjöll eyja (e. chemically clever island).

Góð ráð fyrir baðherbergið á íslensku á heimasíðu verkefnisins efnafræðilega snjöll eyja (e. chemically clever island).

Innihaldsefni snyrtivara á íslensku á heimasíðu verkefnisins efnafræðilega snjöll eyja (e. chemically clever island).

Almennt um snyrtivörur og innihaldsefni þeirra á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Almenn ráð varðandi vörur fyrir persónulega umhirðu á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Vörurnar í baðherbergisskápnum – umfjöllun um innihaldsefni í snyrtivörum á sænsku á heimasíðu Umhverfisstofnunar Svíþjóðar.

Skýrsla um PFAS efni í snyrtivörum á ensku á heimasíðu Efnastofnunar Svíþjóðar (Kemikalieinspektionen).

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 29. janúar 2024.