Bisfenól

Bisfenól (e. bisphenol) eru manngerð efni sem hafa verið framleidd síðan upp úr 1960. Á meðal þeirra er þekkta efnið bisfenól A (BPA). Efnin eru aðallega bætt út í plast til að gera það harðara og endingabetra.

Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?

  • Borðbúnaði úr plasti (t.d. drykkjarflöskur, hnífapör og diskar)
  • Harða hlutanum á snuði úr plasti
  • Dósum undir matvæli (t.a.m. niðursuðudósir)
  • Pelum úr plasti fyrir ungabörn
  • Leikföngum úr plasti
  • Textíl
  • Raftækjum
  • Málningu, lími og lökkum 
  • Öryggisbúnaði úr plasti
  • Hitaþolnum pappír (t.a.m. kassakvittanir, brottfararspjöld og stöðumælasektir)
  • Geisladiskum og geisladiskahulstrum
  • PC-plasti (pólýkarbónat plast)
  • Epoxý resín (t.d. málning)

Hvernig geta þau komist inn í líkamann?

  • Í gegnum fæðuna
  • Með upptöku í gegnum húð
  • Með innöndun

Hvernig getur BPA haft áhrif á heilsu?

  • Aukið líkur á hjarta- og æðasjúkdómum
  • Dregið úr frjósemi
  • Lækkun á fæðingarþyngd nýbura
  • Aukið líkur á offitu og efnaskiptasjúkdómum
  • Óæskileg áhrif á ónæmiskerfið
  • Hormónatengd krabbameinsáhætta (e. hormone related cancer risk)
  • Taugaþroskunarfræðileg áhrif (e. neurodevelopmental effects)
    • Áhrif á tilfinningar, hreyfifærni, minni og lærdómsgetu og erfiðleikar með tungumál og tal.

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir bisfenól efnum?

  • Velja plastvörur sem eru merktar án allra bisfenóla, ekki er nóg að hluturinn sé merktur einungis án bisfenól A (BPA) þar sem því kann einfaldlega að hafa verið skipt út fyrir önnur bisfenól t.d. bisfenól S (BPS), bisfenól F (BPF) eða bisfenól M (BPM).
  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Velja textíl sem er mertkur með Oeko-Tex 1000.
  • Velja drykkjarílát/brúsa úr gleri eða ryðfríu stáli í stað plasts.
  • Velja diska úr keramiki eða málmi frekar en plasti.
  • Varast að hita hluti úr plasti, ekki síst í örbylgjuofni.
  • Forðast að nota brotin eða skemmd plastílát. Ef að matar- eða drykkjarílát eru rispuð eða skemmd að innan þá geta efnin losnað út í matvæli eða vökva.
  • Takmarka neyslu á matvælum sem eru í dósum, t.a.m. niðursuðudósum.
  • Takmarka notkun plastíláta undir heit matvæli eða drykki.
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.

Nánari umfjöllun um bisfenól

Bisfenól er efnahópur sem samanstendur af u.þ.b. 148 manngerðum efnum. Þau eru aðallega notuð við framleiðslu á pólýkarbónat plasti, epoxý resíni og öðrum fjölliðuefnum. Pólýkarbónat plast (e. PC, plasttegund nr. 7) er mjög sterkt og hefur verið mikið notað m.a. í vatnsbrúsa, matarílát, borðbúnað og pela fyrir ungabörn. Epoxý resín er oft notað til að fóðra matar- og drykkjarílát að innan, t.a.m. niðursuðudósir, en slík fóðrun kemur í veg fyrir tæringu á málminum og að málmurinn berist í innihaldið.

Þekktasta og mest rannsakaða bisfenólið er bisfenól A (BPA) og er það framleitt í gífurlegu magni. Önnur bisfenól eru að ryðja sér til rúms vegna takmarkana sem Evrópusambandið setti á BPA. Má þar nefna bisfenól S (BPS), bisfenól F (BPF) og bisfenól M (BPM). Rannsóknir á mögulegum áhrifum þessara staðgönguefna eru hafnar og gefa niðurstöðurnar til kynna að efnin hafi mörg af sömu skaðlegu áhrifum á heilsu eins og BPA.

Bisfenól A hefur verið flokkað m.a.sem efni sem hafa eiturhrif á æxlun (e. reproductive toxicant), geta valdið ertingu í öndunarfærum, alvarlegum augnskaða og húðofnæmi. Efnið er innkirtlatruflandi og líkir eftir estrógeni, sem þýðir að það getur haft áhrif á starfsemi hormónakerfisins og gildir þetta fyrir öll spendýr. Lengi hefur verið rökrætt um þau mögulegu óæskilegu áhrif sem BPA geti valdið og þá hvort og við hvaða styrk efnisins þessi áhrif eiga sé stað. Ein ástæða rökræðnanna er sú að BPA brotnar frekar auðveldlega niður í vatni og safnast því aðeins að litlu leyti fyrir í lífverum og mönnum.

Sýnt hefur verið fram á að bisfenól A lekur í litlu magni úr matar- og drykkjarílátum úr plasti yfir í innihald ílátanna. Það magn eykst eftir því sem ílátin eru notuð meira, eru rispuð og/eða brotin. Efnið lekur mest úr ílátum við háan hita eða við lágt eða hátt sýrustig. Að auki berst bisfenól A inn í líkamann í gegnum húð við meðhöndlun á hitaþolnum pappír þ.m.t. kassakvittunum, en efnið hjálpar til við að láta blekið birtast á slíkum pappír.

Úr hópi bisfenóla er það einungis bisfenól A sem er takmarkað innan EES og kemur það við sögu í nokkrum reglugerðum. Vert er að nefna hér nokkrar takmarkanir og bönn:

Í ESB er til skoðunar að takmarka öll bisfenól og myndi Efnastofnun Evrópu (e. ECHA) þá leggja mat á allan hópinn í stað þess að taka fyrir hvert efni fyrir sig. Sem stendur er ECHA að áhættumeta bisfenól S og bisfenól A og B hafa bæði verið sett á listann yfir sérlega varasöm efni samkvæmt REACH vegna innkirtlatruflandi eiginleika þeirra.

 

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Almennt um bisfenól A í umbúðum matvæla á heimasíðu MAST.

Upplýsingar um bisfenól á heimasíðu lífvöktunarverkefnis Evrópusambandsins (e. HBM4EU):

Almennt um bisfenól á ensku á heimasíðu Efnastofnun Evrópu (e. ECHA).

Almennt um bisfenól A á ensku á heimasíðu Matvælaöryggisstofnun Evrópu (e. EFSA).

Almennt um bisfenól A á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Almennt um bisfenól A á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Almennt um bisfenól A á sænsku á heimasíðu Efnastofnun Svíþjóðar (Kemikalieinspektionen).

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 14. október 2022.