Síloxön

Síloxön (e. siloxanes) er hópur manngerðra efna sem hafa verið framleidd síðan um 1940. Þau eru mikið notuð í snyrti- og hreinlætisvörur til að auðvelda notkun varanna, t.a.m. með því að gera krem smyrjanlegri, til að gera innihaldið kekkjalaust og til að bera viðbætt lyktarefni á líkamann. Þessi umfjöllum er um hringuð síloxön vegna útbreiðslu þeirra og eiginleika.

Í hvaða vörum er líklegt að finna þau?

  • Snyrtivörum 
  • Húðvörum
  • Hárvörum
  • Hreinlætisvörum (t.a.m. svitalyktaeyðum, sápum, sjampó)
  • Raftækjum
  • Bílaumhirðavörum
  • Hreinsiefnum
  • Málningu/lökkum
  • Einangrunarefnum
  • Eldsneyti
  • Sementi

Hvernig geta þau komist inn í líkamann?

  • Í gegnum fæðuna
  • Með innöndun

Hvernig geta þau haft áhrif á heilsu?

  • Dregið úr frjósemi
  • Safnast upp í líkamanum

Hvernig er hægt að draga úr útsetningu fyrir efnunum?

  • Velja vörur án síloxan þegar það er hægt. Á merkingum koma heiti efnanna oftast fram á ensku sem:
    • Cyclomethicone
    • *-siloxane (Heiti með endinuna -siloxane)
    • D3, D4, D5, D6
  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu.
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk.

Nánari umfjöllun um síloxön

Síloxön er stór hópur manngerðra efna sem innihalda efnatengið Si-O og mynda með því stuttar eða langar keðjur eða hringi með ólíkum hliðarhópum tengdum við kísilatómin. Þessi umfjöllun einskorðast við hringuð síloxön vegna útbreiddrar notkunar og þekktra skaðlegra áhrifa þeirra. Nokkuð er um að keðjulaga síloxön séu látin koma í stað hringaðra en ekki er til nægileg þekking á skaðsemi og eiginleikum þeirra til að fjalla um þá eins og er.

Hringuð síloxön

Efnin eru flest hver mjög rokgjörn og ferðast einkum með lofti og vatni langar vegalengdir. Í andrúmsloftinu geta efnin hvarfast við hýdroxý radíkala/stakeindir en eru annars mjög þolin gagnvart oxun, afoxun og ljóssundrun. Að auki eru þau frekar torleyst í vatni og eiga það til að bindast við agnir og set og safnast þar upp. Þetta á sérstaklega við um seyru í skólphreinsistöðvum, en hár styrkur síloxana hefur greinst í seyru á Norðurlöndunum, einkum Finnlandi og Danmörku.

Algengast er að finna efnin í snyrti- og hreinlætisvörum en þau eru einnig notuð í framleiðslu á sílikon fjölliðumÁstæða þess að þeim er bætt út í slíkar vörur er sú að efnin auðvelda notkun varanna, t.a.m. með því að gera krem smyrjanlegri, til að gera innihaldið kekkjalaust og til að bera viðbætt lyktarefni á líkamann. Að auki eru efnin mýkjandi, afrafmagnandi, froðueyðandi og geta leyst önnur innihaldsefni upp. Við notkun á húð gufa síloxönin frekar auðveldlega upp eða um 70% af magni þeirra að talið er. Samt sem áður hafa efnin greinst í blóðsýnum fólks á Norðurlöndunum.

Við uppgufunina enda efnin í náttúrunni en þau geta haft óafturkræf skaðleg áhrif á lífríki vatns og sjávar. Einnig eiga þau til að magnast upp fæðukeðjuna og safnast fyrir í lífverum. Nú þegar hafa nokkur efnanna verið flokkuð sem þrávirk efni sem safnast fyrir í lífverum og eru eitruð, svo kölluð PBT-efni, þau eru:

  • Oktametýlsýklótetrasíloxan (D4) - Einnig grunað um að vera efni sem hefur eiturhrif á æxlun, undir mati Efnastofnunar Evrópu sem þrávirkt lífrænt efni (POPs) og hefur hættuflokkunina langvarandi eiturhrif á vatn 1
  • Dekametýlsýklópentasíloxan (D5) - Ekki er búið að ákvarða samræmda hættuflokkun hjá Efnastofnun Evrópu en verið er að meta nokkrar möguleika.
  • Dódekametýlsýklóhexasíloxan (D6) - Ekki er búið að ákvarða samræmda hættuflokkun hjá Efnastofnun Evrópu en verið er að meta nokkrar möguleika .

Öll þrjú efnin hafa verið sett álistann yfir sérlega varasöm efni samkvæmt REACH vegna PBT og vPvB (mjög þrávirkt efni sem safnast fyrir í lífverum í miklum mæli) eiginleika þeirra. Að auki var sett takmörkun á leyfilegt innihald D4 og D5 í snyrtivörum. Styrkur hvors efnanna í snyrtivörum sem þvegnar eru af skal vera minni en 0,1 % miðað við þyngd (sjá REACH, XVII. Viðauka, færsla 70Umhverfisstofnun). Sem dæmi um slíkar vörur má nefna sjampó, hárnæringu og sápur. Þessi takmörkun tók gildi 31. janúar 2020 og því gæti verið að eldri snyrtivörur innihaldi efnin í hærri styrk.

Aðrar tegundir snyrtivara mega ekki innihalda D4 (reglugerð nr. 577/2013 um snyrtivörur sem innleiðir reglugerð (EB) nr. 1223/2009með sama heiti, sjá II. viðauka; Umhverfisstofnun) vegna mögulegra áhrifa þess á frjósemi og æxlun, en reglugerðin tekur ekki á D5 og því er leyfilegt að bæta því við ýmsar vörur, t.a.m.  svitalyktaeyða.

Snyrtivörur fylgja oft öðrum nafnahefðum heldur en aðrar vörur og því gæti verið að snyrtivara sem er til á heimilinu sé með hringað síloxan þó það standi ekki á innihaldslýsingu vörunnar. Innan snyrtivörugeirans eru hringuð síloxön kölluð sýklómetíkon (e. cyclomethicone) og er það að hluta til vegna þess að oft eru blöndur af hringuðum síloxönum til staðar í einni vöru og þá listuð sem almenna heitið sýklómetíkon. Vert er að nefna að Svanurinn bannar síloxön í vörum sem bera þeirra merki.

Í Noregi er virk skimun á ýmsum efnum í skólphreinsistöðvum og síðustu ár hefur styrkur efnanna D4, D5, D6 verið að aukast í seyrunni sem bendir til þess að notkun þeirra sé að aukast. Noregur fylgist áfram með þróuninni og vinnur að því að auka þekkingu á fleiri hringuðum síloxönum. Efnastofnun Evrópu vinnur einnig að mati á hættuflokkun og eiginleika efnanna.

  

Ítarleg umfjöllun hjá systurstofnunum og öðrum alþjóðastofnunum

Almennt um síloxöná norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af Umhverfisstofnun Noregs (Miljødirektoratet).

Yfirlit um síloxöná ensku á heimasíðu Norwegian Institute for Air Research (e. NILU).

Skýrsla um síloxön á Norðurlöndunumá ensku á vegum undirhóps Norrænu ráðherranefndarinnar.

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 3. nóvember 2022.