Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Lífríki

Mývatn varð til þegar Laxárhraun eldra stíflaði farveg Laxár fyrir um 3800 árum. Úrkomuvatn hripar hratt niður í hraunið og kemur fram sem lindarvatn við jaðar þess. Mývatn er eitt þessara lindasvæða. Um 35 rúmmetrar af vatni streyma á hverri sekúndu úr ótal lindum, köldum og volgum við austur- og suðurbakka vatnsins og frá Grænavatni. Þetta vatn er auðugt af steinefnum og er ein meginundirstaða frjóseminnar í Mývatni. Með aðstoð sólarbirtunnar, sem er óvenju mikil á þessu svæði, verður ríkulegur vöxtur kísilþörunga í vatninu en á þeim lifa svo mýlirfur og krabbadýr sem eru mikilsverð áta fugla og fiska. Mývatn er nægilega stórt og vatnsendurnýjun þess mátulega hæg til að lífríki blómstri þrátt fyrir að vera í 278 m hæð yfir sjávarmáli. Á vatnsbotninum er urmull af mýflugulirfum af mörgum tegundum en þær púpa sig og taka á sig mýflugumynd á vissum tímum sumars, einkum í byrjun júní og ágúst. Karlflugurnar safnast í þétta stróka á vatnsbökkum og yfir hólum og hæðum á lognkyrrum dögum. Þessar mýflugur nefnast einu nafni rykmý og eru meinlausar.

Laxá fellur úr Mývatni í þremur farvegum, Ystukvísl, Miðkvísl og Syðstukvísl. Áin skoppar í smáfossum með lygnum pollum á milli, innan um fallega gróna hólma með blágresi, hvönn, sóleyjum og víði. Þarna eru höfuðból húsandar og straumandar og urriðaveiði er ein sú besta í heimi. Vatnið í Mývatni fær oft á sig græn- eða brúnleitan blæ á sumrin og stafar það af bláþörungum í vatninu. Þeir berast út í Laxá ásamt öðrum sviflífverum og gruggi úr Mývatni og eru megingrundvöllur fæðukeðjunnar. Laxá er frjósamasta straumvatn á Íslandi. Bitmýslirfur sía efnin úr árvatninu og eru mikilvægasta ætið í ánni. Kvenflugurnar sjúga blóð úr kvikfé og fólki og fá þannig næringu til æxlunar.

Mývatn og Laxá eru á skrá um alþjóðlega mikilvæg votlendissvæði samkvæmt Ramsarsáttmálanum.

Mývatn er meðal stærstu vatna á Íslandi, um 37 km2 að stærð. Það er mjög vogskorið og í því eru um 50 eyjar og hólmar. Vatnið er ekki djúpt, meðaldýpi þess er 2,5 m og mesta náttúrulega dýpi aðeins um 4 m.

Fuglalíf

 

 

Húsönd er einkennisfugl Mývatns og Laxár. Stofninn, um 2000 fuglar, byggir tilvist sína á vatnakerfi Laxár og Mývatns. Húsöndin er staðfugl og heldur til á vökum sem eru allan veturinn á ánni og vatninu. Húsöndin er ein fárra tegunda sem upprunalega eru komnar vestan um haf. Í Klettafjöllum Norður-Ameríku verpir hún í holum trjám, en við Mývatn býr hún um sig í holum í hrauninu. Einnig er nokkurt varp í fjárhúsum og hlöðum, m.a. í hreiðurkössum sem sérstaklega hafa verið útbúnir fyrir fuglana.

Stærsta flórgoðabyggð landsins er í Mývatnssveit og verpa þar yfir 200 pör að jafnaði. Flórgoðinn gerir sér flothreiður í gróðri við vatnsbakkann, oftast í runnum sem slúta út í vatnið eða í sefi. Auk flórgoða og húsandar eru tvær fuglategundir sem óvíða finnast annars staðar hér á landi en við Mývatn og Laxá. Þetta eru hrafnsönd og gargönd. Hrafnsöndin er kafönd sem einkum sést við vatnið vestanvert. Steggirnir eru auðþekktir á alsvörtum lit. Gargöndin (litla gráönd) er buslönd sem sést á víða um svæðið.Straumendur finnast um allt land en eru hvergi algengari en á Laxá. Þær halda sig eingöngu í straumvatni á sumrin og sjást ekki á Mývatni.

Allar íslenskar tegundir vatnafugla, fyrir utan brandönd, verpa við Mývatn og Laxá. Skúföndin er algengust en duggönd, rauðhöfðaönd, urtönd og toppönd eru einnig algengar. Óðinshanar (nefndir sundhanar við Mývatn) eru einnig mjög algengir. Álftir og grágæsir eru víða og stór álftahópur heldur til á Mývatni yfir sumarið. Heiðagæsir verpa í hálendisdrögunum sunnan Mývatns en einnig lítillega við vatnið.

Nokkur pör af himbrima (brúsa) og lóm verpa í Mývatnssveit. Hettumáfar og kríur eru algengar og flestallar tegundir vaðfugla, spörfugla og ránfugla finnast á svæðinu. Rjúpur eru einkar algengar og allmörg fálkapör verpa þar, fáein brandugluhjón og nokkrir smyrlar.

Silungurinn

Bleikja er sá fiskur sem mest veiðist af í Mývatni en urriði veiðist þar einnig. Á köldu uppsprettusvæðunum í Mývatni er sérstakt bleikjuafbrigði, svonefnd krús, en í hellum í hrauninu eru dvergvaxnar bleikjur, gjáarlontur. Í efri hluta Laxár veiðist einkum urriði en aðeins lítið eitt af bleikju. Lax gengur í ána neðanverða. Bændur stunda netaveiði í Mývatni sumar og vetur og ganga einnig á dorg síðla vetrar, en í Laxá eru seld stangveiðileyfi.