Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að breytingu á starfsleyfi Laxa eignarhaldsfélags ehf. í utanverðum Reyðarfirði.

Umhverfisstofnun tók ákvörðun 17. mars s.l. um útgáfu starfsleyfis þar sem vikið var frá forsendum matsskýrslu og álits Skipulagsstofnunar frá 21. desember 2018. Frávikið fólst í því að magn eldisins hafði verið skert með tilliti til áhættumats vegna erfðablöndunar þar sem ekki var talið rúmast innan áhættumats Hafrannsóknarstofnunar frá árinu 2017. Í forsendum matsskýrslunnar var hins vegar gert ráð fyrir að um gæti verið að ræða allt að 10.000 t lífmassa í eldinu. Áhættumatið vegna erfðablöndunar gerði ekki ráð fyrir því á þeim tíma að leyfa bæri meira en 15.000 t lífmassa frjórra laxa í Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Í stað þess að hætta við umsókn um starfsleyfi lagði rekstraraðili á þeim tíma inn nýja umsókn til Umhverfisstofnunar um allt að 3.000 t lífmassa eldi á eldi frjórra laxa á svæðinu sem enn var rými fyrir og á þeim grundvelli var gefið út starfsleyfi.

Áhættumatið var endurskoðað með tilliti til mótvægisaðgerða 11. maí 2020 og er því ekki lengur forsenda fyrir því að skerða framleiðslumagnið frá því sem um var fjallað í matsskýrslunni. Nánar tiltekið hefur niðurstaðan í áhættumatinu breyst með þeim hætti að rými er fyrir það eldi í Reyðarfirði sem fór í mat á umhverfisáhrifum. Við útgáfu starfsleyfisins 17. mars s.l. var farið ítarlega yfir matsskýrslu og álit Skipulagsstofnunar frá 4. janúar 2019. Það var lagt til grundvallar ásamt matsferlinu í heild og umsókn rekstraraðila. Við þá útgáfu var það afstaða Umhverfisstofnunar að draga ekki úr kröfum sem fram komu í matsferlinu og voru þær í raun miðaðar við 10.000 t lífmassa og þær forsendur standa enn óhaggaðar þannig að umfjöllun um önnur atriði en áhættumatið átti sér stað á þeim tíma. Vegna sérstöðu þessa máls er gerð tillaga að þessu sinni um breytingu á starfsleyfinu hvað varðar umfang en ekki farið út í að gefa alveg út nýtt starfsleyfi.

Breytingartillagan felur einnig í sér uppfærslu á tilvísunum í lög og reglugerðir ásamt lagfæringum til samræmis við nýrri starfsleyfi sem gefin eru út af Umhverfisstofnun. Breytingar frá gildandi starfsleyfi eru settar í hornklofa. Breytingartillagan verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 2. júlí til og með 4. ágúst 2020 og gefst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um breytingar á starfsleyfinu verður tekin.

Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.
Umhverfisstofnun kallar eftir athugasemdum við breytingartillöguna og skulu þær vera skriflegar og sendar til Umhverfisstofnunar og frestur til að skila athugasemdum eða umsögnum er til og með 4. ágúst 2020.

Tengd skjöl:
Laxar fiskeldi ehf, Reyðarfirði, breyting
Umsókn um breytingu starfsleyfis
Áhættumat vegna erfðablöndunar 2017
Áhættumat vegna erfðablöndunar, endurskoðað 2020

Mynd af Reyðarfirði: Lucas Marcomini