Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Eftirlit, eftirfylgni og þvingunarúrræði

Eitt af hlutverkum Umhverfisstofnunar er að hafa eftirlit með meðferð og markaðssetningu efna, efnablandna og hluta sem falla undir lögin með samræmdum hætti á landinu öllu, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 5. gr. efnalaga nr. 61/2013. Auk þess hefur stofnunin eftirlit með banni og takmörkunum á efnum, efnablöndum og efnum í hlutum, og með vörum sem þurfa markaðsleyfi sbr. 6. tölulið ákvæðisins. Í því skyni útbýr stofnunin eftirlitsáætlun fyrir eftirlit með efnum og efnablöndum sem gildir fyrir landið allt og gætir sérstaklega að hagkvæmni eftirliti og því að fyrirbyggja tvíverknað og skörun eftir því sem frekast er unnt, sbr. 4. tölulið sama ákvæðis.

Eftirlitsáætlun Umhverfisstofnunar er útbúin til þriggja ára í senn en eftirlitsáætlun fyrir árin 2017 til 2019 má nálgast hér.

Umhverfisstofnun sinnir jafnframt öllum ábendingum sem berast í tengslum við meðferð og markaðssetningu efna, efnablandna og hluta sem falla undir efnalögin og fylgir slíkum ábendingum ávallt eftir með eftirlitsferð ef ástæða er til.
Umhverfisstofnun tekur gjarnan við ábendingum er varða öll verkefni og þjónustu stofnunarinnar og hvetur þig til að hafa samband og senda ábendingu eða fyrirspurn hér.
Einnig er hægt að senda nafnlausa ábendingu eða hafa samband í síma 591-2000.
Umhverfisstofnun er heimilt að fara á hvern þann stað þar sem efni, efnablöndur og efni í hlutum eru til skoðunar og eftirlits, sbr. 1. mgr. 49. gr. efnalaga. Í því felst m.a. heimild til sýna- og myndatöku, að fá afhent eintak af vöru til nánari skoðunar, svo og heimild til skoðunar og ljósritunar gagna.
Umhverfisstofnun er ekki heimilt að fara í íbúðarhús eða aðra þvílíka staði í þessum tilgangi án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema að fengnum dómsúrskurði, sbr. lokamálsliður 1. mgr. 49. gr.
Eftirlitsmenn eru ávallt með kynningarbréf þar sem umfang og ástæða eftirlitsins er kynnt auk þess sem allir starfsmenn stofnunarinnar klæðast einkennisfatnaði og/eða eru með starfsmannakort á sér í eftirlitsferðum.
Við skoðun og eftirlit skal hver sá sem hefur undir höndum efni, efnablöndu eða hlut sem inniheldur efni veita án endurgjalds alla nauðsynlega aðstoð við eftirlitið, svo sem með aðstoð starfsmanna, aðgang að húsakynnum og tækjabúnaði. Auk þess ber að veita Umhverfisstofnun allar umbeðnar upplýsingar og afhenda þau gögn sem hafa þýðingu við eftirlitið, sbr. 2. mgr. 49. gr. efnalaga.
Að eftirliti loknu fá eftirlitsþegar ávallt senda eftirlitsskýrslu og bréf þar sem greint er frá niðurstöðum eftirlitsins. Komi ekki upp nein frávik í eftirlitinu gerir Umhverfisstofnun eðli málsins samkvæmt engar athugasemdir og eftirlitsþegi þarf ekki að grípa til neinna ráðstafana. Þá telst eftirlitinu lokið, eftirlitsþegi fær málslokabréf og Umhverfisstofnun birtir niðurstöður eftirlitsins á vefsíðu stofnunarinnar.
Komi upp frávik í eftirlitinu er gerð grein fyrir því hver frávikin eru í bréfi þar sem greint er frá niðurstöðum eftirlitsins auk þess sem stofnunin krefst þess að eftirlitsþegi geri úrbætur og útskýrt er hvað þarf að gera til þess að lagfæra frávikin. Almennt fær eftirlitsþegi tveggja vikna frest til þess að verða við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur, en fresturinn getur farið eftir eðli málsins. Auk þess er eftirlitsþega veitt tækifæri til að andmæla niðurstöðum eftirlitsins. Verði eftirlitsþegi við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur innan veitts frests þannig að stofnunin samþykki úrbæturnar telst málinu lokið og eftirlitsþega er sent málslokabréf.
Verði eftirlitsþegi ekki við kröfum Umhverfisstofnunar um úrbætur innan þess frests sem veittur er þegar farið er fram á úrbætur er stofnað til eftirfylgnimáls hjá lögfræðingi stofnunarinnar þar sem kröfum um úrbætur er haldið til streitu og komið getur til beitingar þvingunarúrræða eða stjórnvaldssekta með tilheyrandi kostnaði.
Í undantekningartilvikum ákveða eftirlitsþegar að hætta sölu á efnavöru frekar heldur en að verða við kröfum stofnunarinnar um úrbætur. Í slíkum tilfellum er málinu að jafnaði lokað af hálfu stofnunarinnar, en ef ástæða þykir til er farið í eftirlitsferð til að ganga úr skugga um að markaðssetningu vörunnar hafi raunverulega verið hætt.
Þá er rétt að geta þess að upp geta komið tilfelli þar sem frávik eru þess eðlis að Umhverfisstofnun ákveður að stöðva markaðssetningu efnis, efnablöndu eða hlutar sem inniheldur efni um stundarsakir þegar í stað ef grunur leikur á að varan uppfylli ekki skilyrði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim í samræmi við heimildir stofnunarinnar samkvæmt 57. gr. efnalaga. Til þess að það gerist þarf eðli fráviks þess eðlis að það stríði gegn markmiði laganna sem er m.a. að tryggja að meðferð á efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni valdi hvorki tjóni á heilsu manna og dýra né á umhverfi og koma í veg fyrir ólöglega markaðssetningu.
Líkt og fram kom hér að framan þá stofnast til eftirfylgnimáls hjá lögfræðingi Umhverfisstofnunar ef eftirlitsþegi verður ekki við kröfum stofnunarinnar um úrbætur innan veittra fresta en það fer eftir eðli málsins og fráviksins til hvaða þvingunarúrræða er gripið. Beiting þvingunarúrræðis er ávallt áformuð með bréfi áður en gripið er til beitingar úrræðisins sjálfs og aðila máls veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, nema um sé að ræða tímabundna stöðvun markaðssetningar.
Þegar aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur Umhverfisstofnun ákveðið honum dagsektir þar til úr hefur verið bætt og geta þær numið allt að 500.000 kr. fyrir hvern dag, en við ákvörðun fjárhæðar dagsekta skal m.a. höfð hliðsjón af alvarleika brotsins, hvað það hefur staðið lengi og hvort um ítrekað brot er að ræða. Í þessu samhengi er rétt að hafa í huga að sérstaklega er kveðið á um það í 3. mgr. 56. gr. efnalaga að ákvarðanir Umhverfisstofnunar um dagsektir eru aðfararhæfar.
Líkt og fram kom hér að framan er Umhverfisstofnun heimilt að stöðva markaðssetningu efnis, efnablöndu eða hlutar sem inniheldur efni þegar í stað ef grunur leikur á að varan uppfylli ekki skilyrði laganna eða reglugerða settra samkvæmt þeim. Í stöðvun markaðssetningar felst að Umhverfisstofnun getur tekið úr sölu eða dreifingu eða innkallað tiltekin efni, efnablöndur eða hluti sem innihalda efni þar til bætt hefur verið úr ágöllum sbr. 57. gr. efnalaga. Þessi heimild er hugsuð fyrir þau tilvik þar sem unnt er að bæta úr ágöllum á efnum, efnablöndum eða hlutum sem innihalda efni, en með því að beita úrræðinu getur Umhverfisstofnun t.d. tekið úr sölu um stundarsakir vanmerkta vöru og veitt seljanda færi á að bæta úr ágöllum og að því loknu getur varan farið aftur í sölu. Í ákvæðinu er sérstaklega vikið frá 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem þýðir að Umhverfisstofnun er heimilt að taka ákvörðun um tímabundna stöðvun markaðssetningar á vöru án þess að veita aðila andmælarétt. Þess í stað er aðila veitt tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að um leið og ákvörðun hefur verið tekin.
Umhverfisstofnun er einnig heimilt að stöðva markaðssetningu vöru sem uppfyllir ekki skilyrði efnalaga eða reglugerð settra samkvæmt þeim af öðrum ástæðum sbr. 58. gr. efnalaga. Í því felst einnig að stofnunin getur tekið úr sölu eða dreifingu tiltekin efni, efnablöndur eða hluti sem innihalda efni og lagt hald á slíka vöru í samræmi við heimild stofnunarinnar samkvæmt 61. gr. laganna. Enn fremur er Umhverfisstofnun heimilt að krefjast þess að birgir fargi viðkomandi efni, efnablöndu eða hlut með öruggum hætti eða afturkalli vöruna eða geymi þar til bætt hefur verið úr ágöllum eða hættu afstýrt með viðunandi hætti.
Loks er vert að geta þess að í 60. gr. efnalaga er sérstaklega gert ráð fyrir því að Umhverfisstofnun geti leitað aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða.