Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Eftirlit með plöntuverndarvörum á markaði 2024


Umhverfisstofnun ráðgerir á næstunni að fara í eftirlit með plöntuverndarvörum sem eru á markaði hér á landi og vill af því tilefni vekja athygli á þeim reglum sem gilda um markaðsleyfi og merkingar þessara vara.

Samkvæmt efnalögum nr. 61/2013 er Umhverfisstofnun falið að sjá um eftirlit með efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni en undir þetta falla meðal annars plöntuverndarvörur.

Til þess að plöntuverndarvörur megi vera á markaði hér á landi þurfa þær að vera með markaðsleyfi sbr. efnalög og reglugerð nr. 544/2015 um plöntuverndarvörur sem innleiðir reglugerð (EB) nr. 1107/2009 sama efnis.  Þá þurfa plöntuverndarvörur að vera merktar samkvæmt reglugerð nr. 415/2014 um flokkun, merkingu og umbúðir efna og efnablandna, reglugerð nr. 544/2015 og reglugerð nr. 677/2015 um meðferð plöntuverndarvara og útrýmingarefna.

Í fyrirhugðu eftirliti mun Umhverfisstofnun skoða hvort plöntuverndarvörur sem boðnar eru fram á markað hér á landi uppfylli skilyrði laga og reglugerða hvað varðar markaðsleyfi og merkingar. Í eftirlitsferðum verður, eftir atvikum, ýmist farið beint til birgja eða á útsölustaði, þar sem vörur þeirra eru boðnar fram.