Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Flug í ETS

Photo by Josue Isai Ramos Figueroa on Unsplash

Umhverfisstofnun er lögbært stjórnvald Íslands vegna viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. flug hefur verið hluti af kerfinu síðan árið 2012 skv. tilskipun 101/2008/EB, enda er losun frá flugstarfsemi stór þáttur í heildarlosun gróðurhúsalofttegunda og fer vaxandi.

Flugrekendum er skylt að afla losunarheimilda vegna losunar koldíoxíðs sem fellur undir gildissvið viðskiptakerfisins. Nokkrar tegundir flugstarfsemi eru undanþegnar gildissviði tilskipunarinnar, m.a. tollgæslu- og löggæsluflug og leitar-, björgunar- og neyðarflug. Þá tekur tilskipunin ekki til flugstarfsemi sem er undir tilteknum mörkum hvað varðar þyngd loftfara, umfang starfsemi flugrekanda eða árlega losun koldíoxíðs. Frá upphafi árs 2012 hefur losun koldíoxíðs frá öllum flugum til, frá og innan Evrópska Efnahagssvæðisins (EES) – 28 aðildarríkjum ESB auk Íslands, Liechtenstein og Noregs – verið innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir (EU ETS). Nokkrar undanþágur hafa þó verið gerðar á gildissviði kerfisins, sem verða hér stuttlega útskýrðar.

 

Stop the clock 2012

„Stopping the clock“ var tímabundin undanþága til að auðvelda fyrir samningaviðræðum um markaðstengt fyrirkomulag á alþjóðavettvangi í tengslum við losun frá flugi, sem virkaði á þann hátt að flug til og frá Evrópu voru undanskilin kerfinu árið 2012.

 

Breyting á tilskipun 2013-2016

Fyrir tímabilið 2013-2016 var löggjöfinni einnig breytt þannig að einungis losun frá flugi innan EES fellur undir viðskiptakerfið. Einnig hafa komið fram undanþágur fyrir flugrekendur sem eru með litla losun.

Þessar breytingar voru gerðar í kjölfar samkomulags Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) í okóber 2013 um að koma á fót markaðstengdu fyrirkomulagi á alþjóðavettvangi í tengslum við losun gróðurhúsalofttegunda frá flugsamgöngum árið 2016 sem myndi gilda frá 2020, eftir áralangan þrýsting frá ESB.

Breytt lög gera ráð fyrir því að Framkvæmdastjórn ESB skili skýrslu til Evrópuþingsins og ráðsins um niðurstöðu 2016 ICAO þingsins og leggi til viðeigandi aðgerðir þar sem alþjóðleg þróun verði tekin með í reikninginn frá árinu 2017.

Á Íslandi var breytingunni komið fram með reglugerð 540/2014 um innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 421/2014 frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun 2003/87/EB um að koma á fót kerfi fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins með tilliti til framkvæmdar á alþjóðasamningi umm beitingu sameiginlegrar markaðstengdrar heildarráðstöfunar um alþjóðlega losun frá flugi frá árinu 2020.

 

Breytingar frá og með 2017

Þriðja breytingin kom síðan fram árið 2017, sem var í rauninni framlenging á fyrri breytingu. Það er, einungis losun innan EES- svæðisins fellur undir viðskiptakerfið, auk fluga til, frá og innan ystu svæða ESB fram til 31/12/2023. Þetta er þó háð innleiðingu CORSIA inn í viðskiptakerfið skv. gr. 28b tilskipunar 87/2003.

Flugrekendur í atvinnurekstri sem losa minna en 25.000 tonn af CO2 á ári mega nú notfæra sér reglur fyrir smáa losendur, þar með talið notkun „Small Emitter Tool“ sem Eurocontrol sér um, auk aðstoðar þeirra í gegnum „Support Facility“. Ef að losunarskýrsla var gerð einungis með þessum hætti, er ekki þörf á að viðurkenndur vottunaraðili votti losunarskýrsluna.

Úthlutun losunarheimilda er sú sama frá 2016-2020. Frá og með árinu 2021 er línulegur lækkunarstuðull settur á úthlutun endurgjaldslausra losunarheimilda í flugstarfsemi, sem er 2,2% á ári.

Flugrekendur sem eru ekki í atvinnustarfsemi og losa minna en 1.000 tonn á ári eru undanþegnir kerfinu til ársins 2030.

Á Íslandi var breytingunni komið fram með reglugerð 601/2018 um  innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2017/2392 frá 13. desember 2017 sem breytir tilskipun 2003/87/EB um áframhald takmörkunar gildissviðs flugstarfsemi til þess að undirbúa innleiðingu hnattræns samkomulags frá 2021.

 

Upplýsingar fyrir flugrekendur

Fyrir 1. febrúar ár hvert uppfærir Framkvæmdastjórnin lista yfir þá flugrekendur sem að falla undir viðskiptakerfið. Listinn er birtur á heimasíðu Framkvæmdastjórnarinnar og má finna hér.

Það að flugrekandi sé ekki á listanum útilokar þó ekki að hann falli ekki undir viðskiptakerfið.

Einnig má hér finna algengar spurningar og svör

Upplýsingar varðandi Swiss Linking fyrirkomulagið má finna hér:

https://ec.europa.eu/clima/sites/clima/files/ets/markets/docs/faq_linking_agreement_part1_en.pdf

og hér:

https://ec.europa.eu/clima/sites/clima/files/ets/markets/docs/faq_linking_agreement_part2_en.pdf

Ef einhverjar spurningar vakna er einnig hægt að hafa samband við Umhverfisstofnun í gegnum netfangið: ets-aviation@ust.is