Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

MARPOL

Reglugerð nr. 586/2017 um innleiðingu viðauka við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum, 1973, með breytingum samkvæmt bókun 1978 (MARPOL-samningur), innleiðir þá fjóra viðauka við MARPOL samninginn sem Ísland hefur staðfest. Viðaukarnir sem um ræðir eru viðauki I um varnir gegn olíumengun frá skipum, viðauki II um varnir gegn mengun vegna eitraðra efna í fljótandi formi sem flutt eru í geymum skipa, viðauki III um varnir gegn mengun af völdum hættulegra efna sem flutt eru í pökkuðu formi og viðauki V um varnir gegn sorpmengun frá skipum. Í fyrrgreindri reglugerð eru meðal annars ákvæði um hlutverk stjórnvalda og einnig eru tilgreind séríslensk ákvæði varðandi viðauka I við MARPOL samninginn. Viðaukar við MARPOL samninginn sem innleiddir eru hér á landi eru birtir á ensku í C-deild Stjórnartíðinda

Umhverfisstofnun, Samgöngustofa og Landhelgisgæsla Íslands eru stjórnvöld í skilningi MARPOL-samningsins og hafa því hlutverki að gegna þegar kemur að eftirfylgni með ákvæðum samningsins og viðauka við hann.

Hlutverk Umhverfisstofnunar:

  • Móttökuaðstaða í höfnum fyrir úrgang og farmleifar frá skipum.
  • Upplýsingagjöf til Alþjóðasiglingamálastofnunar (IMO).
  • Ráðstafanir vegna gruns um óheimila losun í hafið.
  • Veiting undanþága til þess að losa efni í hafið eins og mælt er fyrir um í ákvæðum viðauka við MARPOL-samninginn sem eru birtir í C-deild Stjórnartíðinda.
  • Veiting undanþága frá þeirri skyldu að halda sorpdagbók.
  • Útgáfa dagbóka, veggspjalda og handbóka.

Hlutverk Samgöngustofu:

  • Eftirlit með búnaði skipa vegna mengunarvarna samkvæmt lögum nr. 47/2003 um eftirlit með skipum og lögum nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.
  • Ábyrgð á útgáfu skírteina og skoðun skipa.
  • Veiting undanþága er varðar kröfur um búnað skipa og mat á jafngildi búnaðar eins og mælt er fyrir um í ákvæðum viðauka við MARPOL-samninginn sem eru birtir í C-deild Stjórnar­tíðinda.

Hlutverk Landhelgisgæslu Íslands:

  • Eftirlit með hafsvæðum umhverfis Ísland, jafnt úr lofti sem af sjó.
  • Móttaka tilkynninga um mengunaróhöpp og losun í hafið.

Pólkóðinn tók gildi 1. janúar 2017 og er innleiddur í gegnum MARPOL samninginn, SOLAS samninginn og STWC samþykktina. Hann tekur til smíði og hönnunar skipa, búnað um borð í skipum, þjálfunar áhafnar, reksturs skipa og vernd umhverfisins á hafsvæðunum innan heimsskautasvæðanna. Á heimasíðu Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar er að finna frekari upplýsingar um efni pólkóðans og mikilvægi hans og einnig texta pólkóðans í heild sinni.

Núgildandi textar viðauka við MARPOL samninginn og samþykktar breytingar 

Texti þeirra viðauka við MARPOL samninginn sem Ísland hefur innleitt hefur verið birtur í C-deild Stjórnartíðinda (sjá auglýsingu nr. 2/2017 um reglugerð um innleiðingu viðauka við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum, 1973, með breytingum samkvæmt bókun 1978).

Eftirtaldar breytingar á viðaukum við MARPOL samninginn sem Íslands hefur staðfest hafa verið samþykktar hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni (IMO) eftir birtingu viðaukanna í C-deild Stjórnartíðinda þann 6. júní 2017.  

Viðauki I 

Breytingar samkvæmt ályktun MEPC.276(70), sem tóku gildi 1. mars 2018. Breytingar á formi B í viðbæti við alþjóðlegt olíumengunarvarnaskírteini (IOPPC)

(Amendments to Form B of the Supplement to the International Oil Pollution Prevention Certificate).

Viðauki II 

Breytingar samkvæmt ályktun MEPC.270(69), sem tóku gildi 1. september 2017. Breytingar er varða aðferð við mat á hættu sem stafar af eitruðum efnum (Revised GESAMP Hazard Evaluation Procedure).

Viðauki III

Engar samþykktar breytingar.

Viðauki IV 

Ísland hefur fullgilt viðauka IV við MARPOL samninginn og tók fullgildingin gildi 19. apríl 2019.

Viðauki V 

Breytingar samkvæmt ályktun MEPC.277(70), sem tóku gildi 1. mars 2018. Breytingar er varða efni sem eru skaðleg fyrir umhverfi sjávar og snið fyrir sorpdagbók.

(HME substances and Form of Garbage Record Book).

Viðauki VI 

Ísland hefur fullgilt viðauka VI við MARPOL samninginn og tók fullgildingin gildi 22. febrúar 2018.