Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Olía

Ísland hefur staðfest viðauka I við MARPOL samninginn um varnir gegn olíumengun frá skipum, en þar er að finna ákvæði um skoðanir skipa, útgáfu alþjóðlegs olíumengunarvarnaskírteinis (IOPP),  losun olíu í sjó utan og innan sérhafsvæða, olíusíubúnað, olíudagbók o.fl. Ákvæði viðaukans gilda um sérhvert olíuflutningaskip, sem er 150 brúttótonn eða stærra, og hvert það skip, annað en olíuflutningaskip, sem er 400 brúttótonn eða stærra. Auk þess eru í gildi íslensk sérákvæði fyrir skip sem eru minni en 400 brúttótonn, sjá nánar í reglugerð nr. 586/2017 um innleiðingu viðauka við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum, 1973, með breytingum samkvæmt bókun 1978 (MARPOL-samningur).

Losun olíu í hafið frá skipum, svo og frá pöllum og öðrum mannvirkjum, hvort sem er beint eða óbeint, er óheimil á hafsvæði innan þriggja sjómílna frá grunnlínu landhelginnar, nema um sé að ræða olíublandað vatn sem leiðir af eðlilegum rekstri, sbr. 8. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda. Olíumagn blöndunnar við útrás skal að hámarki vera 15 hlutar í 1.000.000 hlutum blöndunnar (15 ppm). Um losun oliu og olíublandaðs vatns innan íslenskrar mengunarlögsögu gilda að öðru leyti ákvæði viðauka I við MARPOL samninginn en almenna reglan er sú að slík losun er bönnuð nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum (sjá reglu 15 og 34 í viðauka I við MARPOL samninginn og 6. gr. reglugerðar nr. 587/2017 um innleiðingu viðauka við alþjóðasamning um varnir gegn mengun frá skipum, 1973, með breytingum samkvæmt bókun 1978 (MARPOL-samningur)). Umhverfisstofnun gefur út olíudagbækur fyrir íslensk skip og er hægt að nálgast eintak af þeim í afgreiðslu stofnunarinnar.