Efni í plasti

Hvað getum við gert?

  • Minnka neyslu, kaupa minna. 
  • Velja umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu og helst án ilmefna.
  • Þvo eða þurrka af og lofta um vörur áður en þær eru teknar í notkun. 
  • Velja matar- og drykkjarílát úr gleri eða ryðfríu stáli í stað plasts. 
  • Velja frekar gler til að geyma mat í stað plasts.
  • Velja diska úr keramiki eða málmi frekar en plasti. 
  • Varast að hita hluti úr plasti, ekki síst í örbylgjuofni.
  • Forðast leikföng úr mjúku plasti - sérstaklega þau sem voru framleidd fyrir 2007 (þá voru settar strangari reglur). 
  • Forðast að nota brotin eða skemmd plastílát. Ef að matar- eða drykkjarílát eru rispuð eða skemmd að innan þá geta efnin losnað út í matvæli eða vökva. 
  • Takmarka neyslu á matvælum sem eru í dósum, t.a.m. niðursuðudósum. 
  • Takmarka notkun plastíláta undir heit matvæli eða drykki.
  • Ryksuga og þurrka af a.m.k. 1 sinni í viku þar sem efnin eiga það til að loða við ryk. 

Hvað er í plasti?

Plast er orðið órjúfanlegur hluti af okkar daglega lífi, t.d. til að auka öryggi okkar (öryggishjálmar, gleraugu, barnabílstólar), til að auðvelda líf okkar (umbúðir utan um matvæli, tölvur, farsímar, burðarpokar) og fyrir skemmtanagildi (leikföng, sjónvörp, leikjatölvur).

Plast hefur í mörgum tilfellum aukið lífsgæði okkar en notkun þess hefur að sama skapi valdið mikilli mengun. Endingartími plasts er yfirleitt langur. Það er slitsterkt og því eyðist það ekki eða hverfur heldur brotnar niður í smærri og smærri platshluta sem kallast örplast.

Plast er hins vegar ekki eitt efni. Margar gerðir plasts samanstanda af efnum sem blandað er saman til að ná fram ákveðnum eiginleikum, t.a.m. lit, mýkt, viðnámi gegn UV-ljósi, viðnámi gegn íkveikju eða loga o.s.frv. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á efnum sem finnast í plasti og áhrifum þeirra á heilsu og umhverfi þar sem efnin geta losnað úr plastinu við notkun. Sum slíkra efna reynast hafa skaðleg áhrif á meðan önnur virðast skaðlaus. Vandinn er að meirihluti efnanna hefur ekki verið rannsakaður nægilega til að fullvissa okkur um hvort þau eru hættuleg okkur eða ekki.

Íblöndunarefni í plasti geta verið föst, þétt bundin, lauslega bundin eða alls ekki bundin við fjölliðuna – meginefni plastsins. Almennt gildir að aukaefni leka frekar úr plasti ef það er hitað eða kemst í snertingu við fitu eða sýru.

Mýkiefni

Mýkiefni (e. plasticizer) er bætt út í hart eða stökkt plast til að ná fram mýkt og meiri sveigjanleika. Í gegnum tíðina hafa vörur úr mjúku plasti gjarnan verið framleiddar með því að bæta efnum úr hópi svokallaðra þalata út í tegund plasts sem kallast pólývínylklóríð (e. polyvinyl chloride, PVC).

Þalöt finnast víða t.a.m. í matvælaumbúðum, leikföngum, íþróttavörum, snyrtivörum, vínyl gólfefnum og öðrum bygginarefnum. Þau voru einnig mikið notuð í mjúk plastleikföng áður en reglur um efnainnihald í leikföngum voru hertar árið 2007.

Nánari umfjöllun um þalöt.

Herðiefni

Herðiefni (e. hardener) er bætt út í plast til að herða plastið eins og nafnið gefur til kynna. Þetta er einkum notað í pólýkarbónat plast (e. polycarbonate, PC) og epoxý. Flestir kannast eflaust við vinsæla herðiefnið bisfenól A (BPA) en það tilheyrir hópi svokallaðra bisfenóla sem eru mikið notuð í þessum tilgangi.

Bisfenól finnast m.a. í vatnsbrúsum, matarílátum, borðbúnaði og barnapelum úr plasti. Notkun bisfenóls A er háð takmörkunum innan EES m.a. hvað varðar leikföng, barnapela úr PC plasti og kassakvittanir. Þegar upp komst um skaðsemi BPA og takmarkanir á notkun þess hófst þá ákvað iðnaðurinn að skipta því út fyrir önnur bisfenól efni sem eru nú talin hafa sömu óæskilegu áhrif og BPA. Þess vegna er ekki nóg að kaupa vörur sem eru merktar BPA fríar því mjög líklegt er að því hafi einfaldlega verið skipt út fyrir bisfenól S (BPS), bisfenól M (BPM) eða bisfenól F (BPF).

Nánari umfjöllun um bisfenól

Eldtefjandi efni

Eldtefjandi efni (e. flame retardant) er bætt út í plast til að gera það minna eldfimt og til að hægja á útbreiðslu elds ef það kviknar í. Algengasti efnahópurinn sem hefur verið notaður í þessum tilgangi eru brómuð eldtefjandi efni, einkum fjölbrómaðir dífenýleterar (e. PBDEs). Nokkur þeirra hafa verið takmörkuð eða bönnuð.

Efnin finnast í alls kyns plastvörum en þau eru m.a. mikið notuð í fyllingar í bólstruðum húsgögnum svo sem pólýúretan (e. Polyurethane, PU) svamp. Einnig er vert að nefna raftæki, barnabílstóla, byggingarefni, eldhústæki, leikföng og textíl.

Nánari umfjöllun um eldtefjandi efni

Vatns- og olíufráhrindandi efni

Vatns- og olíufráhrindandi efnum eru bætt út í plast til að það hrindi bæði vatni og fitu frá sér sem hefur þótt afar eftirsóknarverður eiginleiki. Efnahópurinn sem hér er verið að fjalla um kallast PFAS og heyra mörg efni undir þann hóp, en efnin geta valdið skaða á heilsu manna og umhverfis.

Algengt er að finna efnin í raftækjum, málningu og take away boxum sem hafa plasthúð eða eru alfarið úr plasti. Notkun nokkurra af þessum efnum hefur verið takmörkuð eða bönnuð en það er aðeins lítið brot af hópnum þar sem hann inniheldur um tugþúsunda efna. Sum þeirra eru talin innkirtlatruflandi, grunuð um að valda krabbameini og aukið líkur á skaða á ónæmiskerfið. PFAS eru þrávirk, brotna lítið sem ekkert niður í umhverfinu, og geta því verið til staðar í þúsundir ára í náttúrunni.

Nánari umfjöllun um PFAS

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 15. maí 2023.