Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Þvotta- og hreinsiefni

Hvað getum við gert?

  • Notum færri hreinsiefni, oft erum við að nota efni af vana en ekki vegna þess að þau eru nauðsynleg.
  • Veljum umhverfismerktar vörur, t.a.m. merktar Svaninum eða Evrópublóminu, helst án ilmefna.
  • Veljum vörur án ilmefna, hvort sem það eru manngerð eða náttúruleg ilmefni (t.d. ilmkjarnaolíur, e. essential oils).
  • Geymum alltaf þvotta- og hreinsiefni þar sem börn og gæludýr ná ekki til.
  • Förum alltaf eftir notkunarleiðbeiningum til að lágmarka hættu á slysum.
  • Alls ekki blanda efnum saman en við það getur myndast skaðlegri efnablanda eða eitraðar gufur einkum ef klór er til staðar.
  • Ef blandað er saman sýru (t.d. edik eða sítrónusafa) og basa (mörg almenn hreinsiefni) þá myndast ný efnablanda sem er hlutlaus og virkar ekki lengur á óhreinindi.
  • Verndum húð með því að vera í hönskum þegar unnið er með ætandi efni líkt og ofnhreinsa.
  • Notum minni skammta fyrir þvottinn því á Íslandi er vatnið almennt steinefnasnautt (mjúkt).
  • Vörumst að hella efnum úr umbúðum í aðrar sem eru ómerktar en þá fylgja ekki lengur hættumerki, hættusetningar eða leiðbeiningar um notkun efnablöndunnar sem eykur líkur á rangri notkun og slysum.
  • Hendum ekki hættumerktum efnum í almennt rusl heldur komum í spilliefnamóttöku.

Almenn umfjöllun

Þvotta- og hreinsiefni eru efni eða efnablöndur sem innihalda sápur og/eða önnur yfirborðsvirk efni til hreingerninga og þvotta. Alls kyns efni geta verið í slíkum vörum t.d. ilmefni, ensím, bleikiefni, hjálparefni, rotvarnarefni og bindiefni sem hafa mismunandi tilgang og eiginleika en þessi flokkur er afar breiður. Margar þessara vara koma að góðum notum í okkar daglega lífi en til eru dæmi þar sem efnum er bætt út í vörur sem eru ekki nauðsynleg innihaldsefni. Hér má nefna t.d. ljósvirk bleikiefni sem hreinsa ekki flíkur heldur hafa áhrif á hvernig ljósbylgjur kastast af flíkinni þannig að hún virki hvítari.

Sum innihaldsefni geta verið varasöm og skaðleg heilsu manna og umhverfis, en algengt er að efni í þessum vörum séu ertandi fyrir húð, augu og/eða öndunarfæri eða eru jafnvel ætandi. Slíkar vörur eru merktar hættumerkjum ef innihaldsefni hafa verið metin að hætti geti stafað af notkun. Þá er mjög mikilvægt að fara eftir notkunarleiðbeiningum og geyma þar sem börn og gæludýr ná ekki til. Efnin geta sloppið út í umhverfið í gegnum skólphreinsistöðvar eða fráveitur og haft skaðleg áhrif á umhverfið einkum vatnalíf. Vert er að vera vakandi fyrir því hvort vörurnar beri hættumerki sem gefur til kynna að það sé skaðlegt umhverfinu.

Besta sem við getum gert er að draga úr notkun efna en vert er að nefna að oft þurfum við ekki mikið magn af þvottaefni í vélina þar sem vatn á Íslandi er yfirleitt mjúkt/steinefnasnautt (í lægsta hörkuflokki). Með minni skammtastærðum fer minna af efnum út í umhverfið, minna er af efnaleifum á heimilinu og á sama tíma sparast peningar sem er gott fyrir heimilisbókhaldið.

 

Hér verður stiklað á stóru um umfjöllun á efnum í þvotta- og hreinsiefnum en margir efnaflokkar eiga við sögu.

Yfirborðsvirk efni

Til að draga úr yfirborðsspennu á milli fitu og vatns þannig að það geti blandast betur saman eru notuð efni sem kallast yfirborðsvirk efni (e. surfacants). Þau leiða til þess að óhreinindi svo sem föst eða fljótandi fita geti skolast í burtu með vatni.

Áður fyrr voru notuð yfirborðsvirk efni sem voru mjög torleyst í umhverfinu en innan EES hafa þau flest verið bönnuð og gerðar eru kröfur um lífniðurbrjótanleika yfirborðsvirkra efna í þvotta- og hreinsiefnum. Efnin geta valdið álagi á umhverfið og eru sum þeirra skaðleg fyrir vantalífverur og vatnsumhverfi. Þessi flokkur efna er í stöðugri þróun m.a. vegna aukinnar kröfu um að þvottur fari að mestu fram í köldu vatni.

Almennt um torleyst yfirborðsvirk efni á norsku á heimasíðu Miljøstatus sem er ritstýrt af sem er ritsýrt af Miljødirektoratet.

Umfjöllun um yfirborðsvirk efni á íslensku á heimasíðu verkefnisins efnafræðilega snjöll eyja (e. chemically clever island).

Ilmefni

Manngerð og náttúruleg ilmefni (t.a.m. ilmkjarnaolíur, e. essential oils) geta valdið snertiofnæmi og ertingu í augum og húð en þeim er bætt við til að hylja lyktina frá öðrum innihaldsefnum eða til að skilja eftir lykt sem við tengjum við „hreinleika“. Þau ilmefni sem eru þekkt sem mögulegir ofnæmisvaldar ber skylda að merkja á innihaldslýsingu varanna í stað þess að nota hugtakið „parfume“, dæmi um slík efni eru t.d. moskus efnasambönd, límónen (e. limonene), línalól (e. linalool) og sítrónellól (e. citronellol).

Sumir geta notað vörur með ilmefnum án vandræða en aðrir geta þróað með sér snertiofnæmi, því miður er ekki hægt að segja til um hverjir eru líklegri til að þróa með sér ofnæmi. Mikilvægt er að sýna varkárni varðandi notkun ilmefna í kringum ungabörn þar sem þau eru almennt viðkvæmari en fullorðnir og því er best að kaupa vörur án allra ilmefna.

Nánari umfjöllun um ilmefni.

Vatns- og olíufráhrindandi efni

Vatns- og olíufráhrindandi efnum eru bætt út í sum hreinsiefni, t.a.m. gólfsápur og gólfbón, til að hrinda frá bæði vatni og fitu sem er afar eftirsóttur eiginleiki. Slíkur tilgangur hjálpar oft til við að vernda hluti gegn sliti eða gera þrifin auðveldari en efnin geta valdið skaða á heilsu manna og safnast upp í umhverfi. Efnahópurinn sem hér er verið að fjalla um kallast PFAS og heyra mörg efni undir þann hóp.

Notkun nokkurra efna úr efnahópnum hefur verið takmörkuð eða bönnuð en það er aðeins lítið brot þar sem hópurinn inniheldur tugþúsunda efna. Sum þeirra eru talin innkirtlatruflandi, grunuð um að valda krabbameini og aukið líkur á skaða á ónæmiskerfið. PFAS eru þrávirk, brotna lítið sem ekkert niður i umhverfinu, og geta því verið til staðar í þúsundir ára í náttúrunni.

Nánari umfjöllun um PFAS efni.

Síloxön 

Í sumum þvotta- og hreinsiefnum, svo sem uppþvottaefnum, eru síloxönum bætt við til að hindra eða draga úr froðumyndun. Sílöxon er stór efnahópur en í þvotta- og hreinsiefnum eru tvær tegundir algengastar; dímetíkón (e. dimethicone) og símetíkón (e. simethicone). Til stendur að meta efnin af Efnastofnun Evrópu (e. ECHA) en þrjú efni sem tilheyra síloxön hópnum hafa nú þegar verið takmörkuð í snyrtivörum. Almennt er talið að sílöxon séu þrávirk og finnist í náttúrunni í langan tíma eftir að þau sleppi út í umhverfið. Mismunandi er eftir efnum hversu mikið þau safnast fyrir í lífverum.

Nánari umfjöllun um síloxön.

Rotvarnarefni

Rotvarnarefni líkt og paraben og tríklósan er bætt við hreinsiefni í vökvaformi til að hindra myglu og/eða til að hindra bakteríuvöxt. Sum paraben eru takmörkuð í snyrtivörum vegna innkirtlatruflandi áhrifa þeirra. Tríklósan er einnig takmarkað í snyrtivörum en það er talið geta valdið því að bakteríur verði ónæmar fyrir sýklalyfjum auk þess að það er mjög eitrað lífverum í vatni.

Nánari umfjöllun um paraben.

Nánar umfjöllun um tríklósan.

Hættumerki 

Algengt er að sjá hættumerki á þvotta- og hreinsiefnum en skylda er að merkja vörur með viðeigandi merkingum á íslensku ef þær eru flokkaðar sem hættulegar. Merkingin er ætluð til að gefa til kynna hvernig hætta getur stafað af vörunni og vera leiðbeinandi um notkun, geymslu og förgun auk þess að gefa upplýsingar um hvað skal gera ef slys ber að höndum.

Dæmi um algeng hættumerki; eldfimt, ætandi, heilsuskaði og skaðlegt umhverfinu:

Nánari umfjöllun um hættumerki.

 

Tengt efni

Ráðleggingar vegna þvotts og þvottaefna á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Ráðleggingar vegna hreinsiefna á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Ráðleggingar vegna algengra efna til heimilisnota á dönsku á heimasíðu Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Skýrsla um efni í þvotta- og hreinsiefnum, könnun og áhættumat á ensku sem gefið er út af Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen).

Almenn umfjöllun og ráðleggingará ensku á heimasíðu Efnastofnunar Evrópu (e. ECHA)

Efnisinnihald þessarar síðu var síðast uppfært 25. janúar 2024.