Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Gervigrasvellir og gúmmikurl

Gervigrasvöllum hefur fjölgað til muna á undanförnum árum bæði innan og utanhúss og eru þeir vel nýttir, sérstaklega af börnum.Notkun gúmmíkurls á þessum völlum hefur valdið nokkrum áhyggjum því það getur innihaldið ýmis hættuleg efni sem geta losnað út í umhverfið. Ef gúmmíkurlið er úr endurunnum hjólbörðum getur það innihaldið s.k. PAH efni sem eru krabbameinsvaldandi en notkun slíkra efna í hjólbörðum er nú bönnuð. Einnig getur gúmmíið innihaldið þungmálma sem eru skaðlegir bæði heilsu og umhverfi.

Það er mikilvægt að átta sig á því að gúmmíið er ekki hættulegt ef snerting við það er í takmörkuðum mæli. Ákveðin hætta er þó fólgin í því að ef gervigrasið og gúmmíið er ekki endurnýjað reglulega þá byrji smám saman að kvarnast úr gúmmíinu sem þyrlast þá frekar upp og valdi loftmengun (ryk og gúmmíagnir).

Góð ráð

  • Burstaðu gúmmíkúlurnar af húð og fatnaði til að lágmarka snertingu við húð.
  • Ef ofnæmisviðbrögð koma fram á húð skaltu forðast að nota gervigrasið. Ofnæmisviðbrögð lýsa sér oftast sem roði í húð.

Gervigras er gert úr neti úr plastþráðum, gervigrasi og undirlagi úr sandi og gúmmíi en gúmmíið er einnig inn á milli plastþráðanna. Gúmmíið mýkir völlinn og gefur honum eiginleika sem svipa til raunverulegs grass.

Á mörgum gervigrasvöllum er notað gúmmíkurl sem oft er fengið úr notuðum bíldekkjum. Endurunnið gúmmí með þessum hætti er ódýrara en nýtt en inniheldur meira af óæskilegum efnum. Gúmmí getur verið misjafnt að gerð en þó er oftast nær óhjákvæmilegt að nota ýmis skaðleg efni við framleiðsluna eins og þungmálma á borð við blý, zink og kadmíum.

Það versta við endurunna gúmmíið er að við framleiðslu bíldekkja hér áður fyrr var notað mikið af olíu sem inniheldur fjölarómatísk vetniskolefni (PAH) sem geta m.a. valdið krabbameini. Notkun slíkrar olíu við framleiðslu hjólbarða hefur nú verið bönnuð. Þá eru sumir næmir fyrir náttúrulegu gúmmíi (latexi) og ef loftræsting er ekki nægileg í yfirbyggðum gervigrasvöllum þá er þeim hætt við að fá ofnæmisviðbrögð.

Gúmmíkurl getur líka haft skaðleg áhrif á lífríki í námunda við velli utanhúss því þungmálmarnir eiga það til að leka út í nálægt umhverfi og skaða lífverur í vatni og jarðvegi.
Nokkur Evrópuríki hafa verið með til skoðunar hvort eðlilegt sé að leyfa þessa notkun á dekkjakurli. Í Svíþjóð og Noregi hefur nú verið mælt með að banna lagningu nýs gervigrass með endurunnu gúmmíi en á gervigrasvöllum í notkun verði engar slíkar kröfur gerðar. Til skoðunar er hvort beina eigi svipuðum tilmælum til sveitarfélaga og aðra rekstraraðila íþróttamannvirkja.

Upplýsingar um gervigrasvelli af heimasíðu Miljøstyrelsen í Danmörku.