Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hvað þarf til að svæði geti talist þjóðgarður?

Þetta svæði, sem áformaður þjóðgarður næði yfir býr yfir miklum náttúrufars- og menningarverðmætum sem og mikilvægri sögu. Þegar áform um þjóðgarð eru uppi er mikilvægt að hafa í huga að þau einkenni sem horft er til að svæðið hafi eru: Lítt snortin landsvæði, sérstætt eða dæmigert lífríki, jarðminjar og/eða landslag og mikilvægis svæðisins í menningarlegu eða sögulegu tilliti. Umrætt svæði hefur öll þessi einkenni.

Dynjandi er meðal hæstu fossa landsins, nær 100 metra hár og af mörgum talinn ein fegursta náttúruperla Íslands. Fossinn er einn helsti viðkomustaður ferðamanna á Vestfjörðum. Á heiðinni fyrir ofan fossinn eru fjölmargar tjarnir og lindir sem fæða fossinn með vatni.

Surtarbrandsgil, einnig í landi Brjánslækjar, er einstakt svæði á Íslandi með tilliti til plöntusteingervinga en þar eru leifar tegundaríkustu skóga, sem fundist hafa í jarðlögum hér á landi, í um það bil 12 milljóna ára gömlum setlögum. 

Í landi Brjánslækjar eru stærri svæði setlaga og plöntusteingervinga af sama aldri og í Surtabrandsgili. Þá er land Brjánslækjar einnig hluti af „neti“ plöntusteingervinga sem saman gefa upplýsingar um breytingar í fornloftslagi og fornumhverfi.

Geirþjófsfjörður sem er í landi Langabotns er sögusvið Gíslasögu Súrssonar. Þar má meðal annars má sjá rústir nálægt bæjaránni í firðinum sem sagðar eru vera af bæ Auðar, konu Gísla. Þá hafa fundist tóftir sunnan við ánna sem taldar eru hafi verið fylgsni Gísla. Samkvæmt sögunni var Gísli veiginn á klettinum Einhamri þar sem hann varist liðsmönnum Eyjólfs gráa. Fjörðurinn er skógi vaxinn og kyrrðin ræður för þar sem ekki liggur vegur niður í fjörðinn.

Hrafnseyri í Arnarfirði er merkileg jörð m.t.t. menningar- og sögulegs mikilvægis. Þar fæddist og ólst um Jón Sigurðsson frelsishetja íslensku þjóðarinnar, en þjóðhátíðardagurinn 17. júní er einmitt miðaður við fæðingardag hans á Hrafnseyri . Á Hrafnseyri er fræðslusetur tileinka ævi og minningu hans. Landnámsbærinn Eyri stóð á Hrafnseyri og bjó þar goðorðsmaðurinn Hrafn Sveinbjarnarson sem er talinn fyrstur lærðra lækna á Íslandi. Þar eru fjölbreyttar sögu og menningarminjar.

 Á öllum þeim stöðum sem hér hafa verið nefndir má einnig finna fjölda menningarminja og sögur er tengjast búsetu á svæðinu, því þegar Íslandi var gefið nafn og fyrstu tilraun til landsnáms. Þar má nefna Flókatóftir, minjar um vetursetu Hrafna Flóka fyrstan norrænna manna, sem talinn er hafa gefið landinu nafnið Ísland þegar hann gekk á fjallið Lómfell og horfði yfir ísilagða firðina. Einnig eru ýmsar sögur um lífsbjörg við firðina, sögu hvalveiða á svæðinu og kynngimagnaður sögur um fjörulalla og önnur skrímsli í Arnarfirði.

Mikilvægt er því að huga að varðveislu menningarminja og að eðli þeirra og dreifing um fyrirhugaðan þjóðgarð sé þekkt. Fornleifaskráning er hluti af almennri lýsingu svæðisins og er mikilvæg forsenda við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar. Samkvæmt lögum um menningarminjar er Minjastofnun Íslands sú stjórnsýslustofnun sem annast framkvæmd minjavörslu í landinu og því þarf að huga vel að samráði við stofnunina innan áformaðs þjóðgarðs