Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Miðstöðvar fyrir fræðslu og miðlun, þjóðgarðsvörð og landvörslu

Fræðsla er mikilvægur þáttur innan þjóðgarða. Fræðslu verður miðlað með ýmsum hætti, t.d. með upplýsingaskiltum, í gestastofum þjóðgarðsins, á heimasíðu Umhverfisstofnunar og einnig munu landverðir fræða gesti, bæði með skipulögðum viðburðum ásamt því að vera til staðar til að aðstoða gesti og svara spurningum þeirra. Hægt er að líta til annarra friðlýstra svæða, t.d. þjóðgarðsins Snæfellsjökuls, til að áætla hvernig starfsmannamálum nýja þjóðgarðsins væri háttað.


Þjóðgarðsvörður færi með daglega stjórn og reksturs þjóðgarðsins og ynni að áætlanagerð og stefnumörkun í ólíkum málaflokkum. Þá annast þjóðgarðsvörður fræðslu og upplýsingagjöf, ræður annað starfsfólk þjóðgarðsins, þar á meðal landverði og skipuleggur starf þess. Einnig tekur þjóðgarðsvörður þátt í gerð og endurskoðun atvinnustefnu og áætlana fyrir þjóðgarðinn, þ.m.t. stjórnunar- og verndaráætlunar, fræðsluáætlunar og öryggis- og neyðaráætlunar og önnur þau verkefni sem falla undir starf þjóðgarðsvarðar.


Með tilliti til landvörslu er hægt er að horfa til þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og taka mið af mannaflaþörf út frá honum. Árið 2020 voru þar þrír heilsárstarfsmenn og þrír landverðir að starfi yfir sumartímann. Lágmarks mannafli þjóðgarðs á Vestfjörðum fyrir utan þjóðgarðsvörð væri landvörður í heilsársstarfi.


Ýmsir staðir kæmu til greina til að hýsa gestastofur og fræðslumiðstöðvar þjóðgarðsins, t.d:

  • Hrafnseyri við Arnarfjörð
  • Brjánslækur þar sem er nú sýning um Surtarbrandsgil
  • Brjánslækur ofan Hafnar. Þar er nú hús sem hýsir miðasölu í ferjuna og veitingasölu. Svæðið væri hugsanlega tilvalið vegna staðsetningar þar sem Baldur kemur þarna að landi en hann er mikil samgönguæð og þetta svæði væri tilvalið sem einn af inngöngum þjóðgarðsins.
  • Einnig væri hægt að hafa gestastofu innan friðlandsins Vatnsfjarðar, t.d. á svæði þar sem bílastæðið er fjallsmegin miðja vegu milli Eiðisár og Vatnsdalsár, við þjóðveg.