Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stjórnun þjóðgarðs

Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með náttúruverndarsvæðum og ber ábyrgð á eftirliti með þeim nema annað sé tekið fram í lögum. Hvað þjóðgarða varðar er ráðherra heimilt að stofna þjóðgarðsráð með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna, stofnana og eftir atvikum félagasamtaka á sviði náttúruverndar og ferðaþjónustu til að vera þjóðgarðsverði til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins. Ef horft er til Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls þá er hann í umsjón Umhverfisstofnunar. Stofnunin vinnur að málum þar í góðu samráði við sveitarfélagið Snæfellsbæ. Ljóst er að slíkt samráð yrði líka viðhaft í þjóðgarði á sunnanverðum Vestfjörðum. Hægt væri að hugsa sér að slíkt samráð væri ávarpað í friðlýsingarskilmálum fyrir þjóðgarðinn, t.a.m. að reglubundið samráð um landnýtingu, uppbyggingu, landvörslu, vöktun, fræðslu og miðlun upplýsinga og aðgengi ferðamanna yrði á milli sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar.

Þó yfirumsjón þjóðgarðs sé hjá Umhverfisstofnun þá er hægt að gera samninga við sveitarfélög eða aðra aðila um rekstur ákveðinna eininga innan þjóðgarðs. Dæmi um slíkt er meðal annars þjónusta og rekstur í Vatnshelli í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli.