Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Umsjón og aðgengi

Aðgengi

Dyrhólaey er friðland. Á friðlýstum svæðum þarf að gæta að verndun samhliða því að tryggja almannarétt. Sum svæði eru lokuð hluta úr ári til verndunar dýralífi, önnur eru lokuð allt árið vegna viðkvæmra náttúruminja, umferð um sum svæði er takmörkuð þannig að fólk þarf að tilkynna sig inn á svæði og enn önnur opin allt árið um kring. Umhverfisstofnun hefur heimild til að takmarka umferð í Dyrhólaey og hefur stofnunin ákveðið síðustu ár hvort og hversu lengi svæðið skuli lokað fyrir umferð almennings til verndunar fuglalífi.

Undanfarin ár hafa verið talsverðar deilur vegna Dyrhólaeyjar, þar sem ólík sjónarmið eru uppi á svæðinu um það hvort og hversu lengi loka skuli eynni. Þar takast á ýmsir hagsmunir. Umhverfisstofnun tekur ákvarðanir með hagsmuni umhverfis og almannarétt að leiðarljósi. Það er mikilvægt að fólk virði þær ákvarðanir sem teknar eru til verndar náttúru og dýralífi jafnt sem þeim sem tryggja almannarétt og umgengni um svæði.

Styrkleikar

Verndargildi svæðisins felst í fuglalífi þó í eðli sínu sé svæðið ekki síður merkilegt með tilliti til landslags. Svæðið er nytjað af nytjarétthöfum, þ.e. með dúntekju og beit. Samkvæmt auglýsingu um svæðið þá getur Umhverfisstofnun takmarkað ferðir út í Dyrhólaey á tímabilinu 1. maí til 25. júní vegna verndunar fuglalífs. Fuglafræðingur hefur árlega verið fenginn til að meta ástand fuglalífs í eyjunni m.t.t. þarfa á lokun. Svæðið dregur að sér mikinn fjölda ferðamanna. Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar og starfsmenn Mýrdalshrepps hafa unnið að ýmsum verkefnum í eynni. Þannig hafa gönguleiðir verið afmarkaðar, settar hafa verið upp girðingar og merkingar, gróður hefur verið endurheimtur og spornað hefur verið við utanvegaakstri. Með tilkomu nýrra gönguleiða á svæðinu er stýring og dreifing ferðamanna mun skilvirkari en áður. Í kjölfar berghruna og sjóslysa frá 2012-2017 hefur aðgangi að Kirkjufjöru verið lokað. Jafnframt hefur þurft að færa stíg á milli Lágey og Háey frá bjargbrúninni sem er víðsvegar mjög sprungin og gæti hrunið með stuttum eða engum fyrirvara.

Veikleikar

Svæðið er viðkvæmt en þolir mikinn fjölda ferðamanna séu sterkir innviðir fyrir hendi. Mikil umferð ferðamanna um ekki stærra svæði setur talsvert álag á stígakerfið sem sífellt þarf að huga að. Úttekt á fuglalífi í eynni gefur til kynna að öllum tegundum sem taldar voru hefur fækkað verulega frá aldamótum. Að mati fuglafræðinga er að verulegu leyti um að kenna fæðuskorti í hafi.