Aðgengi og þjónusta

Aðgengi

Fjallabaksleið nyrðri (F208), liggur á milli Lands og Skaftártungu, í gegnum Friðland að Fjallabaki. Landmannaleið (F225) liggur frá veg 26 áleiðis í Landmannahelli um Dómadal og tengist inn á veg 208 við Frostastaðavat. Sigölduleið (208) liggur frá Sprengisandsvegi (F26) í Landmannalaugar. 

Óvíða er land viðkvæmara fyrir skemmdum vegna umferðar en hér og er því sérstaklega beint til ökumanna að kynna sér ástand vega áður en lagt er upp í ferð um friðlandið og aka alls ekki út fyrir þá vegi sem sýndir eru á korti.

 Friðlandsbæklingur

Veðurfar

Meðalárshiti í Friðlandi að Fjallabaki er líklega 0-1 °C. Júlí er hlýjasti mánuður ársins og er meðalhiti hans 7-8 °C. Meðalhiti köldustu mánaðanna, janúar og febrúar, er hins vegar um ÷ 6 °C. Rétt er að hafa hugfast að meðalhiti einstakra mánaða er ákaflega breytilegur frá ári til árs. Vetraraðstæður með frosti geta komið hvenær ársins sem er. Við Torfajölkul, í suðausturhorni friðlandsins, er ársúrkoma sennilega á bilinu 2 - 3 þús. mm en minnkar síðan ört til norðurs og norðvesturs og er líklega komin niður í um þúsund mm í nyrsta hluta firðlandsins.

Skálar og tjaldsvæði

Tjaldsvæði innan Friðlandsins eru í Landmannalaugum, Landmannahelli og í Hrafntinnuskeri. Skálar Ferðafélags Íslands eru í Landmannalaugum og í Hrafntinnuskeri og Hellismenn eru með skála við Landmannahelli. Skálavarsla er í þeim öllum yfir sumartímann.

Nánari upplýsingar um þjónustu og bókun gistingar: 

Ferðafélag Íslands 

Hellismenn

Landverðir eru að störfum í friðlandinu yfir sumartímann og fram eftir hausti. Þeir eru til staðar til að fræða og upplýsa gesti um friðlandið og leiðbeina um góðar gönguleiðir. 

Gestir friðlandsins eru beðnir um að hafa eftirfarandi umgengnisreglur í huga

  • Akið ekki utan merktra vega.
  • Eyðið ekki eða spillið gróðri.
  • Truflið ekki dýralíf af óþörfu.
  • Kveikið ekki elda.
  • Takið allan úrgang með ykkur til byggða.
  • Hlaðið ekki vörður.
  • Letrið ekki á náttúrumyndanir.
  • Tjaldið ekki utan tjaldsvæða nema í samráði við landvörð.
  • Rjúfið ekki öræfakyrrð að óþörfu.
  • Takið ekkert með ykkur nema myndir og minningar og skiljið ekkert eftir. 

Reglur friðlandsins