Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Hvað er áhugavert?

Mynd: Refur í Almenningaskarði

Landslag

Jökulfirðir eru umluktir fjöllum og þar sést vel hvernig svæðið hefur byggst upp af röð eldgosa þar sem hraunlög eru vel sýnileg og setlög á milli. Jarðlögin eru hluti af blágrýtismynduninni sem er um 12-15 milljón ára gömul og eru ein hin elstu á landinu. Fjöldi bergganga skerst í gegnum hraunlagastaflann og mynda víða stórkostlega dranga og bríkur. 

Sjávarrof einkennir landmótun á Hornströndum en í Jökulfjörðum eru ummerki eftir jökulrof einkennandi. 

Gróðurfar

Gróðurfar á Hornströndum er sérstakt, annars vegar vegna þess að veðurfar þar líkist því sem gerist á heimaskautasvæðum og hins vegar vegna þess að ekki hefur verið beit á svæðinu í hálfa til heila öld. 

Snjóalög eru oft mikil og samfelld og verja gróðurinn vel fyrir frosthörkum yfir vetrartímann. Það leysingavatn sem streymir síðan úr snjóalögunum veldur því að jarðvegur er rakur allt sumarið. Af þessu leiðir að vaxtarskilyrði fyrir ýmsar plöntutegundir eru góð og finnast því einstök blómlendi innan friðlandsins. 

Flóran er fjölbreytt og skráðar hafa verið 260 tegundir æðplantna innan friðlands. Samfelldur gróður nær ekki nema upp í 300-400 m hæð en ekki er minni fegurð fólgin í smávöxnum fjallajurtum eins og jöklasóley, en hávöxnu stóði af burnirót, hvönn og blágresi. Þá má einnig nefna baunagras og blálilju í fjörum. 

Fuglalíf

Innan friðlandsins eru sjö alþjóðlega mikilvæg fuglasvæði sem öll eru sjófuglabyggðir: 

  • Grænahlíð
  • Ritur
  • Kögur 
  • Kjalarárnúpur 
  • Hælavíkurbjarg
  • Hornbjarg 
  • Smiðjuvíkurbjarg

Í friðlandinu er einnig að finna mikið af æðar- og andfugli en Hornstrandir eru mikilvægt fjaðrafellisvæði æðarfugla auk þess sem hluti friðlandsins er vetrardvalarstaður straumanda. 

Fleiri tegundir eins og sendling, snjótittling og þúfutittling er algengt að sjá og einnig verpa hafernir, fálkar og smyrlar innan friðlandsins. Stöðuvötn eru fá svo lítið er um vatnafugla en þó má finna lóma, stokkendur, álftir og óðinshana.

Refir

Af spendýrum er refurinn mest áberandi og er hann alfriðaður. Heimskautarefurinn er skráður í II. viðauka Bernarsamningsins og er tegundin friðuð í Evrópu. Friðlandið er  eitt helsta griðland refa í álfunni.

Fjöldi ferðamanna heimsækir friðlandið á Hornströndum til að sjá og taka myndir af villtum heimskautarefum, bæði sumar og vetur. 

Rannsóknir hafa verið gerðar á refnum, lífsháttum hans og áhrifum ferðamanna á hegðun hans og afkomu. Þær hafa sýnt fram á að ferðamennska getur í sumum tilfellum haft neikvæð áhrif á afkomu refa.

Reglur um refaskoðun hafa verið settar fram til að draga úr álagi á refinn, þær má finna hér.

Önnur spendýr

Af öðrum spendýrum innan friðlandsins má nefna að hagamýs eru þar algengar og við ströndina má gjarnan sjá seli, bæði landsel og útsel.

Byggð

Árið 1952 flutti síðasti ábúandinn af svæðinu (Hesteyri). Fram til ársins 1995 var vitavörður í Hornbjargsvita en síðan þá hefur enginn búið í friðlandinu. Eftir standa hús sem flest voru byggð á fyrstu áratugum tuttugustu aldar, af þeim eru Staðarkirkja í Aðalvík og bænahúsið í Furufirði friðlýst. Í Aðalvík eru minjar um hersetu  og víða má finna rústir ýmissa húsa. 

Gönguleiðir innan friðlandsins eru helstu samgönguleiðir sem farnar voru meðan svæðið var í ábúð. Leiðirnar eru flestar merktar með vörðum og falla þær ásamt götum undir minjavernd.  

Tenglar á rannsóknaniðurstöður: