Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Einkunnir, Borgarbyggð

Einkunnir
Einkunnir í Borgarbyggð voru friðlýstar sem fólkvangur árið 2006. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda jarðmyndanir og votlendi í þágu útivistar, náttúruskoðunar og fræðslu fyrir almenning.

Aðgengi

Einkunnir eru rétt fyrir utan þéttbýli Borgarness. Til að komast inn á svæðið er farið um malarveg sem liggur frá þjóðvegi eitt til norðurs í gegnum hesthúsahverfi gegnt golfvellinum að Hamri. Göngustígar liggja um svæðið og má finna gönguleiðir sem henta flest öllum. Göngustígar um svæðið hafa verið stikaðir og kurl komið í hluta þeirra. Um fólksvanginn liðast 13 km af göngustígum. Svæðið er opið allt árið og umsjón með svæðinu er í höndum sveitarfélagsins Borgarbyggðar.

Umgengisreglur

  • Óheimilt er að hrófla við gróðri og jarðmyndunum eða trufla dýralíf.
  • Búfjárbeit og meðferð skotvopna er bönnuð.
  • Óheimilt er að hafa hunda í fólkvanginum án fylgdar og tryggrar stjórnar.
  • Akstur vélknúinna farartækja utan akvega er óheimill í fólkvanginum.

Öllum er heimil för um svæðið. Göngum vel um og berum virðingu fyrir náttúrunni og öðrum gestum.

Um fólkvanginn

Í Einkunnum er að finna fjölbreytt landslag, jökulsvorfnar klettaborgir, vöxtulegan skóg, lífvænlegar mýrar og dýra- og plöntulíf er fjölbreytt. Ofan af Syðri – Einkunnum er útsýnisskífa enda víðsýnt.

Einkunnir draga nafn sitt af þremur klettaborgum sem rísa upp af mýrlendi. Nafn svæðisins kemur fyrir í Egilssögu, en orðið einkunnir var notað um auðkenni í landslagi. Klettaborgirnar sem svæðið er kennt við, sjást víða og af Syðri–Einkunnum er víðsýnt um allan Borgarfjörð, Borgarfjarðardali og mýrar. Skógrækt hefur lengi verið stunduð á svæðinu og vex þar nú myndarlegur skógur. Nálægð við þéttbýli og gott aðgengi gerir svæðið ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu.

Nánari upplýsingar um Einkunnir má finna hér.