Má ég tjalda hvar sem er?

Það eru ýmis atriði sem hafa ber í huga ef stefnt er að því að tjalda eða hafa næturgistingu utan skipulagðra tjaldsvæða. Í nóvember 2015 tóku í gildi ný náttúruverndarlög þar sem nokkrar breytingar urðu á því hvar sé heimilt að tjalda. Til að mynda var lögunum breytt í þá vegu að nú er óheimilt að hafa næturgistingu í tjaldvögnum, fellihýsum, hjólhýsum, húsbílum og öðrum sambærilegum búnaði utan skipulagðra tjaldstæða og þéttbýlis nema leyfi landeiganda eða rétthafa lands komi þar til. Annars gilda eftirfarandi reglur um hvar má tjalda samkvæmt lögunum: 

Hvar má tjalda ?

  • Við alfaraleið í byggð er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur á óræktuðu landi sé tjaldsvæði ekki í næsta nágrenni og landeigandi hefur ekki takmarkað eða bannað aðgang að svæðinu með merkingum við hlið og göngustíga umferð manna og dvöl þeirra innan svæðisins.
  • Við alfaraleið í óbyggðum, hvort heldur er á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að setja niður hefðbundin viðlegutjöld.
  • Utan alfaraleiðar hvort heldur sem á eignarlandi eða þjóðlendu, er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum nema annað sé tekið fram í sérreglum sem kunna að gilda um svæðið.  

Hvenær þarf að afla leyfis landeiganda eða rétthafa lands ?

  • Ef til stendur að tjalda nærri mannabústöðum eða bæ.
  • Ef til stendur að tjalda til fleiri en einnar nætur.
  • Ef um er að ræða fleiri en þrjú tjöld.
  • Ef um er að ræða ræktað land.
  • Ef um er að ræða tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi, húsbíla og annan sambærilegan búnað utan skipulagðra tjaldsvæða og þéttbýlis.                

Eru einhver svæði þar sem má ekki tjalda/hafa næturgistingu ?

  • Eiganda lands eða rétthafi getur takmarkað eða bannað að tjöld séu reist þar sem veruleg hætta er á að náttúra landsins geti beðið tjón af.
  • Ef landeigandi eða rétthafi lands hefur útbúið sérstakt tjaldsvæði á sínu landi er honum heimilt að beina fólki þangað og taka gjald fyrir þjónustuna. Eins ef tjaldsvæði er í nágrenni eignarlandsins getur eigandinn beint fólki þangað.
  • Á friðlýstum svæðum geta verið takmarkanir á því hvort heimilt sé að tjalda þar (sjá hér fyrir neðan)  
AndakílTjöldun og næturgisting óheimil.
ÁlafossTjöldun og næturgisting óheimil.
Blábjörg á BerufjarðarströndTjöldun og næturgisting óheimil.
Bringur í MosfellsdalTjöldun og næturgisting óheimil.
DimmuborgirTjöldun og næturgisting óheimil.
DynjandiTjöldun og næturgisting óheimil. Göngu- og hjólreiðamenn hafa leyfi til að tjalda til einnar nætur.
DyrhólaeyTjöldun og næturgisting er háð leyfi Umhverfsstofnunar.
FjallabakNæturgisting er einungis heimil í skálum og á skilgreindum tjaldsvæðum. Tjöldun á öðrum stöðum er háð samráði við landverði.
Grábrókargígar í NorðurárdalTjöldun og næturgisting er háð leyfi Umhverfsstofnunar
HornstrandirTjöldun og næturgisting óheimil utan merktra tjaldsvæða   
Hverfjall/HverfellTjöldun og næturgisting óheimil.
IngólfshöfðiTjöldun og næturgisting óheimil.
KattaraugaTjöldun og næturgisting óheimil.
KirkjugólfTjöldun og næturgisting óheimil.
MývatnTjöldun og næturgisting óheimil utan merktra tjaldsvæða.
Seljahjallagil, Bláhvammur, Þrengslaborgir og nágrenni Tjöldun og næturgisting óheimil.
SkógafossTjöldun og næturgisting óheimil utan merktra tjaldsvæða
SkútustaðagígarTjöldun og næturgisting óheimil. 
Þjóðgarðurinn SnæfellsjökullGöngu- og hjólreiðarmenn þurfa leyfi þjóðgarðsvarðar annars er tjöldun og næturgisting óheimil.
Ströndin við Stapa og Hellna Tjöldun og næturgisting óheimil.
TeigarhornTjöldun og næturgisting óheimil.
VatnajökulsþjóðgarðurInnan þjóðgarðsins ber gestum að nota skipulögð tjaldsvæði fyrir tjöld, tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla. Fjarri skipulögðum tjaldsvæðum er heimilt að tjalda hefðbundnum viðlegutjöldum til einnar nætur. Hópar þar sem eru 10 tjöld eða fleiri þurfa þó leyfi þjóðgarðsvarðar. Við tjöldun utan skipulagðra tjaldsvæða skal þess gætt að ekki sé valdið skemmdum á vettvangi og jafnframt skal taka allt sorp og úrgang til byggða.
Tjöldun utan merktra tjaldsvæða er óheimil á eftirtöldum svæðum:
  • Í Jökulsárgljúfrum
  • Á svæði sem nýtur sérstakrar verndar í Öskju.
  • Á láglendi á Hoffellssvæði og Heinabergssvæði.
  • Á Skaftafellsheiði, Bæjarstaðarskógi og í Morsárdal. Þó er heimilt að tjalda í Skaftafellsfjöllum ofan 400 m y.s. og á svæði í mynni Kjósar. Ferðafólk skal afla upplýsinga hjá þjóðgarðinum um tjöldun á þessum svæðum.
 
 Vatnsfjörður Tjöldun og næturgisting óheimil utan merktra tjaldstæða.
 Þingvallaþjóðgarður Tjöldun og næturgisting óheimil utan merktra tjaldsvæða.