Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt miðvikudaginn 27. apríl s.l. málstofu um aðferðir við flokkun vatnshlota í gerðir, ákvarðanir um manngerð og mikið breytt vatnshlot og mat á álagi á vatnshlotagerðir.

Málstofan var liður í kynningu vegna þeirrar vinnu sem framundan er hér á landi vegna nýrra laga um stjórn vatnamála.  Áhersla var lögð á þann grunnþátt við innleiðingu nýrra laga til vatnastjórnar að flokka vatnshlot í gerðir innan áa, stöðuvatna, árósa, sjávarlóna og strandsjávar. Flokkun vatnshlota í gerðir er ákvörðuð út frá landfræðilegum þáttum, s.s. hæð yfir sjávarmáli, staðsetningu, flatarmáli, dýpi og sjávarföllum, og jarðfræðilegum eiginleikum. Einnig var á málstofunni fjallað um ákvarðanir um manngerð og mikið breytt vatnshlot, auk þess sem farið var í aðferðir við frummat á álagi á gerðir vatnshlota.

Framsögu á málstofunni höfðu Jon Lasse Bratli frá Klima- og forurensningsdirektoratet í Noregi og Helga Gunnarsdóttir frá vatnasvæðinu Morsa í Austur Noregi.  Jon Lasse Bratli er yfirverkfræðingur hjá KLIF og hefur tekið þátt í innleiðingu vatnatilskipunarinnar í Noregi frá upphafi auk þess að vera fyrirlesari og leiðbeinandi á fjölda námskeiða og ráðstefna um vatnatilskipunina. Hann hefur einnig komið fram sem fulltrúi Noregs í Evrópusamstarfi varðandi vatnatilskipunina. Helga Gunnarsdóttir er verkefnisstjóri við innleiðingu vatnatilskipunarinnar á vatnasvæðinu Morsa, við austanverðan Oslófjörð, þar sem eru stór landbúnaðarhéruð, ásamt mengandi iðnaði.

Jon Lasse Bratli fjallaði í fyrra erindi sínu um aðdraganda vatnatilskipunarinnar í norskan rétt, tækifærum sem Norðmenn sáu í nýjum aðferðum við að bæta gæði vatns til hagsbóta fyrir almenning og áskoruninni sem fólst í nýjum vinnuaðferðum við flokkun vatns.  Í síðara erindi sínu fjallaði Jon Lasse Bratli um aðferðir við lýsingu og eiginleikagreiningu vatnshlota í gerðir, setningu gæðaviðmiða fyrir ólíkar vatnagerðir og mat á álagi á vatnshlot.  Helga Gunnarsdóttir fjallaði í erindi sínu um starf sitt í vatnasvæðinu Morsa sem er við austanverðan Oslófjörð. Svæðið sem Helga stýrir er fjölbreytt, með miklum landbúnaði og áburðarnotkun. Vötn á Morsa svæðinu hafa orðið fyrir mikilli mengun af völdum fosfórs og svifagna sem aðallega berast í vötnin með lækjum sem renna í vötnin og valda þar ofauðgun. Helga lagði mikla áherslu á notkun á líffræðilegum mælikvörðum til að meta ástand vatnanna og sýndi sæmi um árangur sem náðst hefur á síðustu árum.

Eftir erindin voru hringborðsumræður með þátttöku Helgu Gunnarsdóttur og Jon Lasse Bratli og verður upplýsingum sem komu þar fram safnað saman og unnar frekar.

Fyrirlestrar