Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Aðeins fyrir efni um Al

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Al, álvinnslu, í Helguvík, Reykjanesbæ. Rekstraraðila er í nýju starfsleyfi heimilað að vinna ál úr álgjalli með því að bræða það í ofni. Heimilt er í nýju starfsleyfi að vinna ál með ferlum sem ekki fela í sér saltmeðhöndlun úr allt að 12.000 tonnum á ári af álgjalli auk þjónustu fyrir eigin starfsemi. Meðhöndun gjallsands og síuryks í skolgryfju til að draga úr umhverfisáhrifum efnisins er nú aðeins heimil með samþykki Umhverfisstofnunar.

Alur, álvinnsla hf.  sótti um starfsleyfi þar sem tilteknar forsendur í fyrra starfsleyfi gengu ekki upp hjá fyrirtækinu og breytingar hafa orðið á starfseminni frá því sem fyrirhugað var. Því var niðurstaðan að unnið yrði að gerð nýs starfsleyfis þar sem forsendur yrðu hugsaðar upp á nýtt. Umhverfisstofnun auglýsti nýja tillögu opinberlega á tímabilinu á tímabilinu 28. apríl til 23. júní 2011 og lá hún frammi á skrifstofu Reykjanesbæjar á sama tíma en auk þess var haldinn kynningarfundur í Duushúsi, Reykjanesbæ, þann 23. maí s.l. þar sem stofnunin kynnti tillöguna. Á þeim fundi fóru einnig fram umræður um starfsemi fyrirtækisins og umhverfismál tengd henni.

Tvær athugasemdir bárust um tillöguna á auglýsingatíma. Atvinnu- og hafnaráð Reykjanesbæjar bókaði á fundi 15. júní 2011 að það samþykkti starfsleyfistillöguna. Hins vegar kom athugasemd frá Alcan á Íslandi sem gagnrýndi grein um álinnihald og tilgreindi sérstaklega að sendandi gjallsins gæti ekki mælt álinnihald til að ganga úr skugga um að kröfunni verði fylgt.

Niðurstaða Umhverfisstofnunar varðandi athugasemd Alcan á Íslandi er að gerðar voru breytingar á nokkrum greinum starfsleyfisins frá auglýstri tillögu. Með breytingunni er verið að endurskoða kröfu um gæðatryggingu sem gæti virst snúa að nokkru leyti að þriðja aðila. Með breytingunni er rekstraraðili gerður ábyrgur fyrir hráefninu en með þessu móti telur stofnunin að tryggara sé að réttarhrif ákvæðanna séu eins óumdeilanleg og mögulegt er. Með þessari aðferð álítur Umhverfisstofnun jafnframt að best sé að bregðast við athugasemd Alcan.

Nýja starfsleyfið gildir til 1. september 2023. Með gildistöku þess fellur úr gildi eldra starfsleyfi Umhverfisstofnunar fyrir Al, álvinnslu hf. sem gefið var út 21. október 2003.