Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Fyrr á þessu ári birti Umhverfisstofnun Evrópu (UE) skýrslu um nýja úttekt á meðhöndlun heimilisúrgangs í álfunni. Varð skýrslan að efni fréttar í Fréttatímanum í mars síðastliðnum. Samkvæmt fréttinni eru hverfandi líkur á því að Íslendingar geti uppfyllt skilyrði Evrópusambandsins um endurvinnslu heimilisúrgangs. Er niðurstaðan sú að við Íslendingar séum komnir svo skammt á veg að auka verði endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs um 2–4 prósentustig á ári til að ná markmiði um 50% endurvinnsluhlutfall árið 2020. Umhverfisstofnun telur að þótt halda verði vel á endurvinnslumálum hér á landi næstu árin þá dragi úttekt UE upp heldur dökka mynd af stöðunni. Í úttektinni er þróun endurvinnsluhlutfalls heimilisúrgangs skoðuð fyrir tímabilin 2001–2010 og 2006–2010 og hún notuð til að spá fyrir um þróunina til ársins 2020. Þegar kemur að Íslandi virðist úttektin falla á því grundvallaratriði að nota rétt gögn við útreikningana því að í athugasemd skýrsluhöfunda við niðurstöðurnar kemur fram að fyrir Ísland hafi verið áætlað að endurvinnsluhlutfallið árið 2010 hafi verið það sama og árið 2008. Það er mjög óvarleg áætlun, einkum þegar litið er til þess að þróunin í þessum geira getur verið hröð á milli ára. Sú var einmitt raunin hér á landi. Umhverfisstofnun tekur árlega saman svokallaða sjálfbærnivísa fyrir magn og ráðstöfun heimilisúrgangs í landinu, sem Hagstofa Evrópusambandsins birtir. Samkvæmt þessum sjálfbærnivísum fóru tæp 33% af þeim heimilisúrgangi sem féll til árið 2010 til endurvinnslu. Úttekt UE gerði hins vegar ráð fyrir að endurvinnsluhlutfallið hefði verið 26%. Þessi ranga forsenda í útreikningum UE verður til þess að úttektin dregur upp dekkri mynd af stöðunni en raunverulega er. Sé hið rétta endurvinnsluhlutfall notað við útreikningana, og aðferðafræði UE, verður niðurstaðan sú að Íslendingar þurfa að auka endurvinnslu heimilisúrgangs um 1–2 prósentustig á ári til að ná markmiði um 50% endurvinnsluhlutfall árið 2020. Setur það Ísland í flokk með Finnlandi, Frakklandi og Spáni.

Yfirleitt er reyndin sú að endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs hækkar ekki jafnt á milli ára, heldur er þróun hlutfallsins fremur sveiflukennd. Á milli áranna 2010 og 2011 varð hækkun hlutfallsins hér á landi til að mynda rúm sex prósentustig. Við Íslendingar færðumst því nær markmiðinu að ná 50% endurvinnsluhlutfalli árið 2020. Þó að slíkum árangri beri að fagna gefur hann ekki tilefni til að slá slöku við, heldur er það von Umhverfisstofnunar að hann verði okkur hvatning til að gera enn betur.

Súlurit fyrir endurvinnslu heimilisúrgangs í Evrópu árið 2010