Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

22. janúar 2014 | 10:15

Fækkun eftirlitsferða: Íslandsbleikja ehf.

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Samkvæmt reglum um mengunareftirlit er heimilt að draga úr reglubundnu eftirliti með mengandi starfsemi sé starfsleyfishafi án frávika fjögur ár í röð. Íslandsbleikja ehf. óskaði eftir að eftirlitsferðum yrði fækkað á þessum forsendum á Stað og á Vatnsleysuströnd. Umhverfisstofnun hefur farið yfir eftirlitsskýrslur síðustu ára hjá báðum starfsstöðum og getur staðfest að skv. þeim, hafa þær verið starfræktar án frávika frá ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfis síðastliðin ár. 

Umræddar starfsstöðvar eru báðar flokkaðar í 3. eftirlitsflokk og fá eftirlit einu sinni á ári. Umhverfisstofnun telur í ljósi ofangreinds, að rétt sé að fækka eftirlitsferðum til fyrirtækisins þannig að eftirlit verði annað hvert ár og mun ákvörðun þessi taka þegar gildi og gilda næstu sex árin. Þannig mun stofnunin fara í reglubundið eftirlit hjá starfstöðvum Íslandsbleikju ehf. á Stað og Vatnsleysuströnd á árunum 2015, 2017 og 2019. Að þeim tíma liðnum verður hægt að óska eftir framlengingu á þessari ákvörðun. Eftirlitsgjald verður hið sama og áður, en einungis innheimt þau ár sem farið er í eftirlit. 

Ákvörðunin verður endurskoðuð á tímabilinu verði rekstraraðili uppvís að fráviki frá lögum, reglugerðum eða starfsleyfi. Stofnunin hefur áfram heimild til þess að fara í fyrirvaralaust eftirlit. 

Eftirlit með mengandi starfsemi

Umhverfisstofnun hefur frá árinu 2008 hert eftirlit sitt og breytt verklagi hvað það varðar. Árið 2011 var fyrsta heila árið þar sem allar þær breytingar voru komnar til framkvæmda að fullu. Frávik eru betur skráð, þeim er öllum fylgt eftir og þvingunarúrræðum beitt. Þá höfum við fjölgað fyrirvaralausum eftirlitsferðum. Meðfylgjandi mynd sýnir að fyrir þær breytingar var þvingunarúrræðum, s.s. áminningum, sjaldan beitt. Frávikum milli ársins 2011 og 2012 fækkar um 25% sem bendir til þess að þær breytingar sem ráðist var í, þar á meðal markvissari beiting þvingunarúrræða, séu að skila árangri.

Viðmið um losun mengandi efna hérlendis byggja að langstærstum hluta á samevrópsku regluverki. Eftirlit og starfsleyfisútgáfa Umhverfisstofnunar var yfirfarin af IMPEL (samstarf stofnana í Evrópu um innleiðingu og eftirfylgni umhverfislöggjafar) í ágúst 2012. Meginniðurstöðurnar voru þær að uppbygging og framkvæmd eftirlitsins hérlendis sé sambærilegt því sem gerist í Evrópu og uppfyllir lágmarksviðmið. 

Fylgstu með eftirlitinu

Á umhverfisstofnun.is er hægt að skoða allar eftirlitsskýrslur og ýmis gögn sem tengjast þeim fyrirtækjum sem eru undir eftirliti. Hvert fyrirtæki er með sérstaka síðu þar sem birtar eru eftirlitsskýrslur, bréf vegna beitingu þvingunarúrræða, mælingar og fleira tengt. Hægt er að skoða yfirlit yfir fyrirtækin á korti af Íslandi þannig að auðvelt sé að finna fyrirtæki hvar sem er á landinu.

Í gæðakerfi stofnunarinnar (sem er ISO 9001 vottað) er nú verkferli um hvenær og með hvaða hætti upplýsingum um losun mengandi efna skuli komið á framfæri við almenning. Alltaf þegar fyrirtæki er áminnt fyrir að standast ekki kröfur um losun mengandi efna (eða hefur ekki skilað inn gögnum til þess að skera úr um hvort starfsemin sé innan marka) er sett frétt á umhverfisstofnun.is þess efnis sem og send fjölmiðlum.

Í yfirferð IMPEL á eftirliti stofnunarinnar kom fram að upplýsingamiðlun sé til fyrirmyndar og leiðandi í Evrópu.