Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Landform ehf. vinnur að gerð deiliskipulags fyrir náttúruvættið Dynjanda sem er samstarfsverkefni Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar. Markmið með deiliskipulaginu er að tryggja verndun náttúru- og menningarminja á svæðinu ásamt því að bæta aðgengi og auka öryggi ferðamanna. Helstu framkvæmdir verða m.a. að; bæta aðstöðu á bílastæði með nýjum rútustæðum og stæðum fyrir húsbíla, endurskipuleggja tjaldsvæði, bæta salernisaðstöðu og setja þurrsalerni sem verða opin allt árið, gera aðstöðu fyrir sorp og koma á flokkunarkerfi. Þá er fyrirhugað að halda áfram endurbótum á göngustíg meðfram ánni, gera hluta hans færann hreyfihömluðum og útbúa áningastaði við sérvalda útsýnisstaði. 

Ferðamönnum hefur fjölgað mikið á Dynjanda á undanförnum árum. Svæðið hefur látið á sjá og lenti á rauðum lista yfir svæði sem áttu á hættu að tapa verndargildi sínu. Tekist hefur að snúa þeirri þróun við með aukinni landvörslu og stýringu ferðamanna um svæðið. Með nýju deiliskipulagi verður þeirri vinnu haldið áfram og tryggt að svæðið verði verndað til framtíðar. 

Deiliskipulagstillaga hefur verið auglýst og verður til sýnis á bæjarskrifstofum í Stjórnsýsluhúsinu, Hafnarstræti 1, Ísafirði og á heimasíðu Ísafjarðarbæjar frá og með 30. janúar til og með 13. mars 2014.