Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur nú hafið vinnu við gerð verndar- og stjórnunaráætlunar fyrir náttúruvættið Dynjanda. Skipuð hefur verið samstarfsnefnd við gerð áætlunarinnar og í henni sitja Hákon Ásgeirsson sérfræðingur Umhverfisstofnunar, Ralf Trylla umhverfisfulltrúi Ísafjarðarbæjar og Steinunn Huld Atladóttir gæða- og umhverfisstjóri RARIK. Verndar- og stjórnunaráætluninni er ætlað að fjalla um markmið verndunar svæðisins og hvernig standa skuli að viðhaldi verndargildis þess.

Umhverfisstofnun hefur gefið út leiðbeiningar varðandi gerð verndar- og stjórnunaráætlana, Stjórnun friðlýstra náttúruminja í umsjón Umhverfisstofnunar, sem hafðar verða til hliðsjónar við gerð áætlunarinnar. Lögð er áhersla á samráð og samstarf við hagsmunaaðila og er fólk hvatt til að kynna sér verkefnið og senda ábendingar og athugasemdir. 

Ferlið verður opið og gagnsætt og verða helstu gögn varðandi áætlunina aðgengilegar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.