Stök frétt

20. mars 2015 | 08:23

Starfsleyfi veitt fyrir fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar á Neskaupstað

Höfundur myndar: Gísli Jónsson

Umhverfisstofnun hefur veitt Síldarvinnslunni hf. starfsleyfi fyrir rekstur fiskimjölsverksmiðju við Naustahvamm 67-69 á Neskaupstað. Nýja leyfið veitir heimild til að framleiða úr allt að 1400 tonnum af hráefni á sólarhring, en er það aukning frá eldra starfsleyfi verksmiðjunnar sem er nú fallið úr gildi, en gilti það leyfi fyrir allt að 1100 tonnum af hráefni á sólarhring. 

Tillaga að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna var auglýst á tímabilinu 16. desember 2014 til 17. febrúar 2015. Auk opinberrar auglýsingar á tillögunni var hún sérstaklega send til umsagnar hjá umsækjanda, Heilbrigðiseftirliti Austurlands, Skipulagsstofnun og Vinnueftirlitinu. 

Bárust ekki athugasemdir við tillöguna frá umsagnaraðilum aðrar en þær að Heilbrigðiseftirlit Austurlands benti á að orðalag um fiskúrgang í gr. 1.2 og 2.3 væri ekki til samræmis við nýútgefin leyfi stofnunarinnar. Þessu orðalagi var breytt yfir í „afskurður og fráflokkaður fiskur/aukaafurðir“. Umsækjandi gerði einnig athugasemdir við sama orðalag.

Nánari upplýsingar um meðferð athugasemda eru í greinargerð sem fylgir fréttinni. 

Nýja starfsleyfið öðlaðist gildi þann 19. mars sl. og gildir til 19. mars 2031.