Stök frétt

Mynd: Srdjanns74/iStock

Undanfarið hefur borið á kvörtunum til Umhverfisstofnunar um hávaða vegna framkvæmda í þéttbýli. Kvartað er vegna nýbyggingaframkvæmda, endurbygginga gamalla húsa og gatnagerðar. Umhverfisstofnun vill minna á að sérstakar reglur gilda um hávaða. Þarf sérstaka aðgæslu nálægt leik- og grunnskólum sem og nálægt dvalarrými þjónustustu- og hjúkrunarstofnana.

Í reglugerð er fjallað um hávaða frá framkvæmdum en markmið reglugerðar um hávaða er að koma í veg fyrir hann eða draga úr skaðlegum áhrifum. Þar segir að við allar framkvæmdir skuli þess sérstaklega gætt að valda sem minnstu ónæði vegna hávaða. Jafnframt er kveðið á um að mönnum beri skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir heilsuspillandi hávaða og takmarka ónæði.

Ennfremur eru framkvæmdaaðilum sett tímamörk um hvenær sólarhrings er leyfilegt að vinna að háværum framkvæmdum við íbúðasvæði og dvalarrými. Eins og fram kemur í töflu hér að neðan má ekki hefja háværar framkvæmdir fyrr en kl. 07:00 á virkum dögum og kl. 10:00 um helgar. Þeim verður að vera lokið kl. 21:00 á virkum dögum og kl. 19:00 um helgar. Ef um sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir er að ræða mega þær hefjast kl. 07:00 á virkum dögum og verður þá að vera lokið kl. 19:00. Sérstaklega hávaðasamar framkvæmdir eru óleyfilegar um helgar.

Sérstök ákvæði gilda um tilkynningarskyldu í byggð. Háværar framkvæmdir (byggingar, gröftur, sprengingar og gatnagerð) á íbúðasvæðum eða í nágrenni þeirra, við skóla og dvalarrými þjónustustofnana og hjúkrunarstofnana skal framkvæmdaraðili kynna fyrir íbúum nærliggjandi svæða, þ.e. fyrirhugaðar framkvæmdir, umfang þeirra o.fl. Sérstaklega þarf að greina frá tímasetningum þeirra athafna sem eru sérstaklega til þess fallnir að valda ónæði, s.s. meitlun og sprengingar.

Ef framkvæmdaraðili brýtur í bága við ofangreind ákvæði og fylgir ekki tilmælum eftirlitsaðila getur eftirlitsaðili, sem er heilbrigðiseftirlit viðkomandi sveitarfélags gripið til aðgerða eins og áminnt framkvæmdaraðila, stöðvað eða takmarkað viðkomandi starfsemi eða lagt á dagsektir, allt að 500.000 kr. á dag, uns úr hefur verið bætt.

Nánar um reglugerð nr. 724/2008, um hávaða: http://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/724-2008