Stök frétt

Hafin er í Stundinni okkar sýning sjónvarpsþátta um umhverfismál sem Umhverfisstofnun og Krakka-Rúv unnu saman. Fyrsti þátturinn var sýndur sl. sunnudag og sá næsti verður á dagskrá næsta sunnudag. Þættirnir verða einnig til sýnis á krakkaruv.is á sérhönnuðu vefsvæði.

RÚV framleiðir þáttaröðina en fjöldi sérfræðinga hjá Umhverfisstofnun gaf fjölbreyttar upplýsingar sem nýttust handritsgerðinni auk þess sem Umhverfisstofnun styrkir gerð þáttanna. Alls eru þættirnir sex talsins, 5-10 mínútur að lengd hver.

Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, segir mikilvægt að ná til ungs fólks og vekja áhuga þess um umhverfismál. Mikil vakning hafi orðið meðal ungmenna um umhverfismál síðari misseri. Segir Kristín Linda að þáttagerðin sé enn eitt lóðið á vogarskál sjálfbærrar og umhverfisvænnar veraldar.

Sjá má fyrsta þáttinn hér í sarpinum þegar 8:45 mín. eru liðnar http://www.ruv.is/sarpurinn/ruv/stundin-okkar/20170219. Fyrsti þátturinn fjallar um mengun og hvetur t.d. krakka til að láta ekki foreldra skutla sér á mengandi bíl ef annar og umhverfisvænni ferðamáti er í boði.

Myndin er af Kristínu Lindu Árnadóttur og Skarphéðni Guðmundssyni, dagskrárstjóra Sjónvarpsins.