Stök frétt

Sigrún Ágústsdóttir, sviðstjóri hjá Umhverfisstofnun, sagði í kvöldfréttum Sjónvarps á Rúv í gær að samkvæmt athugasemdum íbúa í Reykjanesbæ upplifðu þeir lífsgæðaskerðingu vegna loftmengunar frá kísilveri Sameinaðs silíkons í Helguvík.

Tíðar kvartanir hafa orðið frá íbúum vegna síendurtekinnar lyktarmengunar. Nema athugasemdir til Umhverfisstofnunar mörgum tugum. Í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi forráðamönnum kísilversins í fyrradag segir að svo kunni að fara að starfsemin verði stöðvuð ef ekkert breytist.

Spurð um lífsgæðaskerðingu íbúa sem getið er í bréfinu, sagði Sigrún Ágústsdóttir: „Já. Það er bara það sem íbúarnir hafa verið að lýsa við okkur í samtölum og tölvupóstum, hvernig þeim líður. Og þetta er ekki nógu gott.“

Þá kom fram að eftirlitið sem Umhverfisstofnun hefur með þessu fyrirtæki sé mun meira en sögur fara af gagnvart öðrum fyrirtækjum.  Ekki eru fordæmi um annað eins.

Stjórnandi öryggis- og umhverfismála hjá United Silicon, sagði í samtali við Rúv að fyrirtækið myndi nýta 14 daga viðbragðsfrest sinn við bréfi Umhverfisstofnunar. Ekki sé ljóst hvaða áhrif verði af málinu. Farið hefur verið fram á verkfræðilega úttekt á starfsemi Sameinaðs silíkons.

Sjá frétt Rúv hér: http://www.ruv.is/frett/hota-ad-loka-kisilveri-united-silicon