Stök frétt

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar og Reykavíkurborgar unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið Akurey. 

Drög að áætluninni eru hér með lögð fram til kynningar.

Akurey er lág og vel gróin eyja í Kollafirði, norðaustan við Seltjarnarnes. Í Akurey verpa ýmsir sjófuglar og flokkast hún sem alþjóðlega mikilvæg sjófuglabyggð.

Akurey var friðlýst sem friðland vorið 2019 og felst verndargildi hennar fyrst og fremst í fuglalífi eyjarinnar. Hún er fyrsta friðland innan borgarmarka Reykjavíkur. 

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Akurey er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við landeigendur, sveitarfélag og hagsmunaaðila og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun Akureyjar og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins þannig að sem mest sátt ríki um. Í áætluninni er lögð fram stefnumótum til 10 ára, ásamt aðgerðaáætlun til fimm ára. 
Drög að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið auk auglýsingar um friðlýsingu svæðisins má sjá hér.

Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum varðandi tillöguna er til og með 29. nóvember 2019. 

Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum á heimasíðu Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is, eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg Gunnarsdóttir, gudbjorg@umhverfisstofnun.is, eða í 
síma 591-2000.