Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í nýrri könnun Umhverfisstofnunar kom í ljós að 45 % svarenda þekktu hættumerki á neytendavörum en um 30 % töldu að úreltar, eldri merkingar væru þær réttu. Þá kom í ljós að konur fara frekar en karlar eftir leiðbeiningum um notkun á vörum sem bera hættumerkingar og eru ólíklegri til að kaupa slíkar vörur. 

Ýmsar algengar neytendavörur s.s. hreinsiefni, stíflueyðar, grillvökvar, duft fyrir uppþvottavélar og tauþvottaefni innihalda efni sem geta verið hættuleg fyrir heilsu og umhverfi. Mikilvægt er að notendur hafi vitneskju um áhættuna sem getur stafað af slíkum vörum, lesi leiðbeiningar og umgangist þær á réttan hátt og því hafa verið settar reglur um merkingu á þeim sem gilda fyrir Evrópska efnahagssvæðið. Umhverfisstofnun fer fyrir þessum málaflokki hér á landi og er þetta þriðja könnunin sem stofnunin lætur gera á þekkingu almennings á merkingum á vörum sem innihalda hættuleg efni, fyrri kannanir fóru fram 2015 og 2017.  Niðurstöðurnar eru notaðar til að meta áhrif af kynningarstarfi stofnunarinnar í þessum málaflokki.

Þrjár spurningar sem tengjast hættumerktum efnavörum voru lagðar fyrir í Þjóðargátt Maskínu í nóvember sl., þær sömu og árið 2015 og 2017. Fyrst var spurt hvort fólk þekkti hættumerkin sem notuð eru til þess að gefa til kynna hættueiginleika efnavara og þar kom í ljós að 45 % svarenda þekktu merkin sem ber að nota samkvæmt núverandi löggjöf, samanborið við 32 % í könnuninni 2017 og einungis 9 %  árið 2015. Í fyrstu könnuninni 2015 bentu 91% svarenda á eldri merki sem hafa verið notuð um árabil en heyra nú sögunni til, en nú er það hlutfall komið niður í 30 %. Það er því ljóst að þekking almennings hvað þetta varðar hefur aukist á tímabilinu, þó vissulega megi gera betur. 

Þegar spurt var hvort fólk væri líklegra eða ólíklegra til að kaupa efnavöru ef hún bæri hættumerkingar töldu 50 % sig vera miklu eða nokkru ólíklegri til þess nú, en voru 41 % í síðustu könnun. Eins og áður sögðust karlar líklegri en konur til að kaupa hættumerktar vörur. 

Loks var spurt hvort fólk færi eftir notkunarleiðbeiningum sem tilgreindar eru á umbúðum hættumerktra efnavara og 20 % svarenda sögðust stundum gera það, en 64 % oftast eða alltaf, sem gerir samtals 84 %. Sambærileg hlutföll voru 23 % og 67 % í könnunni 2017 eða samtals 87 % og því virðist að þeim hafi fækkað sem lesa leiðbeiningar fyrir þessar vörur, en munurinn er þó ekki marktækur. Þá sögðust 16 %  sjaldan eða aldrei lesa leiðbeiningar nú, en voru 12% í könnuninni 2017. Hlutfall kvenna sem fara alltaf eða oftast eftir notkunarleiðbeiningum er samtals 70%, en þetta hlutfall er 60% meðal karla, sem er marktækur munur og breytist nær ekkert á milli ára.

Ljóst er að enn er nokkuð í land með að þekking almennings á merkingum vara sem innihalda hættuleg efni sé ásættanleg, en Umhverfisstofnunin hefur sett fram það viðmið í stefnumótun sinni fyrir árin 2018-2022 að yfir 90% í úrtaki þekki hættumerkin í lok tímabilsins. Stofnunin þarf því áfram að leggja áherslu á kynningarstarf hvað þetta varðar, auk þess að bregðast við ábendingum um vanmerktar vörur og halda úti virku eftirliti með því að skyldubundnar merkingar á efnavörum séu fullnægjandi.

Samantektarskýrsla Maskínu 
Kynntu þér hættumerkin á Hönnuhúsi  og taktu skyndiprófið „Hvað þýða hættumerkin?“