Stök frétt


Með hliðsjón af öryggi og velferð neytenda hafa Samkaup (Nettó, Iceland, Kjörbúðin og Krambúðin) og framleiðsluaðilinn Volcanic Drinks ehf. ákveðið að innkalla tært handspritt í 250ml umbúðum (strikamerki 6198430425440) og taka hana úr sölu að höfðu samráði við Umhverfisstofnun. Ástæða innköllunarinnar er sú að útlit vörunnar er þannig að mögulegt er að villast á henni og drykkjarvöru, t.d. vatnsflöskum.

Um er að ræða nýja vöru á markaði sem var framleidd í þeim tilgangi að bregðast við skorti á handspritti, en markaðsaðstæður eru þannig að erfitt er að útvega umbúðir sem henta undir markaðssetningu á handspritti þrátt fyrir að ekki skorti hráefni. Framleiðsluaðili vörunnar mun breyta umbúðum og halda framleiðslu áfram til að bregðast við eftirspurn vegna Covid19 auk þess sem varan verður markaðssett í stærri umbúðum sem ætlaðar eru til áfyllingar.

Varan fór í sölu í lok föstudagsins 13. mars og var því aðeins í sölu yfir helgina. Þeir viðskiptavinir Samkaupa sem hafa keypt vöruna er bent á að þeir geta skilað henni í verslunina þar sem hún var keypt gegn fullri endurgreiðslu og biðja Samkaup og Volcanic Drinks ehf. þá viðskiptavini sem kunna að hafa orðið fyrir óþægindum vegna þessa innilegrar afsökunar.

Vakin er athygli á því að einungis er um villandi umbúðir að ræða, handsprittið sjálft er vel nothæft til sótthreinsunar. Kjósi viðskiptavinir að nýta handsprittið til að fylla á aðrar umbúðir eru þeir hvattir til þess að setja það í notaða pumpu- eða úðabrúsa t.d. undan handspritti eða handsápu, þannig að síður skapist ekki hætta á því að varan verði notuð í öðrum tilgangi en til er ætlast.