Stök frétt

Út er komin skýrsla um ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða árið 2019. Haustið 2019 voru 106 áfangastaðir innan friðlýstra svæða metnir. Í tilfellum þar sem friðuðu svæðin eru stór hafa fleiri en einn áfangastaður verið metinn, það á t.a.m. við í Þjóðgarðinum Snæfellsjökuli og innan friðlandsins að Fjallabaki, en á hvoru svæði voru metnir 8 áfangastaðir. 

Helstu niðurstöður eru þær að ástand margra áfangastaða hefur batnað á milli ára. Hefur það aukning í landvörslu og innviðauppbygging skilað miklu. Má því til stuðnings nefna að milli áranna 2018 og 2019 fjölgaði svæðum á grænum lista (svæði sem standa mjög vel það álag sem á þeim er) úr 23 í 34. 

Áfangastaðir í hættu 
Árið 2019 voru tveir áfangastaðir metnir í hættu, þ.e. á svokölluðum rauðum lista. Það er Rauðifoss, innan friðlandsins á Fjallabaki og Dettifoss að austan. Þessir tveir áfangastaðir voru einnig á rauðum lista árið 2018.. Breytingin milli ára er þó sú að einkunn Rauðafoss hefur hækkað lítillega og mun líklega komast af þessum lista árið 2020, vegna þeirra framkvæmda sem eru fyrirhugaðar þar. 
Ef litið er til ástands við Dettifoss að austanverðu þá verður að hafa í huga að nú er unnið að uppbyggingu vegar með bundnu slitlagi vestan Jökulsár sem verður til þess að aðgengi að Dettifossi, og öðrum náttúruperlum vestan Jökulsár, stórbatnar. Því er mikilvægt að staldra við og fylgjast með þróun í fjölda ferðamanna austan ár . Gert er ráð fyrir að á árinu 2020 verði gerðar tillögur til úrbóta á umræddu svæði austan Jökulsár.

Áfangastaðir sem eiga á hættu að tapa verndargildi sínu - svæði á appelsínu gulum lista.
Jafnmargir áfangastaðir eru í ár appelsínugulir og í fyrra. Töluverð hreyfing hefur þó orðið á listanum, þar sem fjölmennir ferðamannastaðir eins og Skógarheiði við Skógarfoss, og Laugahringurinn og Laugavegurinn innan Friðlandsins á Fjallabaki hafa unnið sig út af listanum. Nýir áfangastaðir á listanum eru í tveimur tilfellum staðir þar sem umgengni og gróðurskemmdir eru að draga niður einkunn staðarins en þrír af þeim áfangastöðum sem koma nýir inn á listann voru í metnir í fyrsta sinn í ár.

Ásfjall
Ástjörn 
Eldborg undir Geitahlíð 
Innan Friðlands að Fjallabaki: Landmannahellir og Landmannalaugar 
Helgustaðanáma 
Hleinar  
Hlið 
Hveravellir 
Laugarás 
Rauðhólar 
Tungufoss 
Innan Bláfjallafólkvangs: Skíðasvæði 
Innan Reykjanesfólkvangs: Helgafell, Leiðarendi, Sogin, Stapar við Kleifarvatn og Vigdísarvellir 

Hingað til hafa eingöngu svæði í umsjón Umhverfisstofnunar verið metin, en er nú stefnt að því að bæta fleiri svæðum í matið. Er hér sérstaklega verið að horfa til Vatnajökulsþjóðgarðs og Þjóðgarðsins á Þingvöllum en vilji er hjá þeim að taka þátt í matinu. Mat á ástandi áfangastaða 2020 ætti þannig að vera frá öllum friðlýstum svæðum á Íslandi sem eru undir álagi af völdum ferðamanna. 

Skýrsluna má sjá hér