Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Borið hefur á fyrirspurnum um áhrif covid-veirunnar á meðhöndlun úrgangs, sér í lagi flokkun endurvinnsluefna. Umhverfisstofnun leggur áherslu á að til að halda hirðu úrgangs í sem eðlilegustu horfi er mikilvægt að halda áfram að flokka eftir þeim leiðbeiningum sem berast frá sveitarfélögum og sorphirðuaðilum.

Eitt margra mikilvægra atriða sem huga þarf að vegna farsótta er að gæta varúðar við umgengni um ílát undir úrgang og meðhöndla úrgangs á réttan hátt. Við hvetjum almenning til að kanna hjá sínu sveitarfélagi eða sorphirðuaðila hvaða reglur gilda um úrgang frá heimilum.

Ef sveitarfélagið hefur gefið út sérstakar reglur um úrgang hjá fólki í sóttkví og einangrun er mikilvægt að fylgja þeim. Á þeim heimilum þar sem smit hefur komið upp þarf að huga sérstaklega að mögulegum smitleiðum. Efni sem hugsanlega er sóttmengað verður að setja með blönduðum úrgangi, s.s. snýtubréf, latexhanskar og eldhúsbréf sem hafa verið notuð við þrif eða sótthreinsun. Blandaður úrgangur skal vera í lokuðum pokum og reynt skal að koma í veg fyrir að ílát yfirfyllist. Í flestum sveitarfélögum er enn tekið við úrgangi á grenndar- og endurvinnslustöðvum.  

Þær breytingar sem hafa verið gerðar á sorphirðu og meðhöndlun úrgangs miða allar að því að auka öryggi starfsfólks sem meðhöndlar úrgang með því að fækka smitleiðum.