Stök frétt

 

Nú þegar Covid-19 er á allra vörum beinum við athygli almennings að heilsubót með aukinni útiveru. Friðlýst svæði henta einkar vel fyrir göngutúra vegna góðra innviða og þjónustu landvarða. En það er ekki bara hreyfingin sem gerir okkur gott heldur lyftir stórbrotin íslensk náttúra líka andanum, ekki síst með vaxandi dagsbirtu.

 

Hvatning til útvistar og hreyfingar er í samræmi við stefnu Europarc, evrópsk regnhlífasamtök þjóðgarða og friðlýstra svæða um alla Evrópu. Á ráðstefnu í Lettlandi í september síðastliðnum var sérstaklega fjallað um þjóðgarða og friðlýst svæði sem þátt í eflingu lýðheilsu. Á það ekki síst við nú á krefjandi tímum.

 

Munum jafnframt ábendingar Almannavarna og sóttvarnalæknis um sóttvarnir, fjarlægð manna á millum og samkomubann.

 

Á síðu Umhverfisstofnunar finnur þú upplýsingar um friðlýst svæði í nágrenni við þig. Nánari upplýsingar um svæðin er hægt að fá á ust.is.