Stök frétt

Hámarki á losun gróðurhúsalofttegunda var náð árið 2007. Eftir hrun gætti töluverðs samdráttar en síðan 2011 hefur losun verið tiltölulega stöðug. Losun sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda var svo gott sem óbreytt milli áranna 2017 og 2018, minnkaði um 0,1%.

Þróun losunar Íslands sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda samkvæmt skuldbindingum Íslands gagnvart Evrópusambandinu er sýnd á mynd 1 hér fyrir neðan. Frá árinu 2005, sem er viðmiðunarár fyrir skuldbindingar Íslands gagnvart Evrópusambandinu,  hefur losun  dregist saman um 6,3%. Hins vegar, eins og sjá má, hefur losun gróðurhúsalofttegunda verið nokkuð stöðug síðan 2012. 


Mynd 1: Losun 2005-2018 sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda (kt CO2-ig)

Helstu uppsprettur sem falla undir beina ábyrgð íslenskra stjórnvalda eru vegasamgöngur (33%), olíunotkun á fiskiskipum (18%), nytjajarðvegur (8%), losun frá kælimiðlum (svo kölluð F-gös)(6%) og losun frá urðunarstöðum (7%). Hlutfallslosun frá mismunandi uppsprettum má sjá á mynd 2 en allar uppsprettur sem telja minna en 4% af losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda voru undanskildar á myndinni.  


Mynd 2: Losun 2018 sem er á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda - flokkar sem eru 4% af losun á beinni ábyrgð stjórnvalda eða stærri - samtals 91% af losun á beinni ábyrgð íslenskra stjórnvalda

Losun á beinni ábyrgð stjórnvalda sem fjallað er um hér fyrir ofan er sú losun sem íslensk stjórnvöld munu þurfa að gera upp gagnvart Evrópusambandinu, bæði fyrir annað skuldbindingartímabil Kýótóbókunarinnar (2013-2020) og skuldbindingartímabil Parísarsamkomulagsins (2021-2030). Evrópusambandið mun síðan gera upp losun aðildaríkjanna sem og hlutaðeigandi EFTA ríkja, þ.e. Íslands og Noregs í heild gagnvart Rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC). Þá tekur Ísland einnig þátt í þeim aðgerðum Evrópusambandsins sem snúa að samdrætti í losun frá stóriðju í gegnum evrópska viðskiptakerfið með losunarheimildir þ.e., EU ETS (e. EU‘s Emission Trading Scheme). 

Ítarlegri upplýsingar um losun Íslands má finna í skýrslu Umhverfisstofnunar (National Inventory Report - NIR) um losun gróðurhúsalofttegunda til loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC) sem var birt í dag. Í skýrslunni er að finna upplýsingar um þróun losunar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi frá 1990 til 2018, ásamt lýsingu á aðferðafræðinni sem notuð er til að meta losunina. Í skýrslunni koma einnig fram upplýsingar um losun og bindingu frá landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt (LULUCF), sem og losun frá alþjóðaflugi og alþjóðasiglingum en sú losun telst ekki til tölulegra skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum. Skýrsluna má nálgast á heimasíðu Umhverfisstofnunar ásamt samantekt á helstu niðurstöðum á íslensku. Þar má einnig finna svör við algengum spurningum um innihald skýrslunnar ásamt aragrúa upplýsinga á gagnvirku formi, m.a. um samantekt á losun gróðurhúsalofttegunda, skuldbindingar í loftslagsmálum, uppsprettur losunarinnar eftir geirum o.fl.
Umhverfisstofnun hvetur alla til að skoða vefsíðuna til að fá betri sýn á stöðu Íslands í loftslagsmálum.