Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Í næstu viku hleypir Umhverfisstofnun af stokkunum nýrri tegund af fræðslu til almennings, viðskiptavina og fjölmiðla um umhverfismál. Fræðslunni verður streymt á netinu einu sinni í mánuði og miðar hún að því að miðla margvíslegum verkefnum stofnunarinnar, niðurstöðum verkefna og ýmsum fróðleik fyrir almenning.

Halla Einarsdóttir, teymisstjóri hjá stofnuninni, ríður á vaðið næsta miðvikudag, 29. apríl, sem fyrirlesari. Hún ræðir áherslur og árangur í mengunareftirliti og verður erindi hennar streymt í gegnum Teams forritið. Sjá slóð hér: https://bit.ly/3bs8468

Í lok fræðslunnar geta hlustendur spurt spurninga og fengið svör. Opið hús með þessu fyrirkomulagi er fyrirhugað út árið og hefur átakið hlotið nafngiftina: „Umhverfisvarpið“.

 „Ein af skyldum Umhverfisstofnunar er að miðla og fræða þannig að ég fagna þessu skrefi og vonast eftir góðri þátttöku frá landsmönnum. Von okkar er að þessi þjónustuviðbót falli í góðan jarðveg hjá Íslendingum, ekki síst nú á tímum covid-veirunnar, þar sem fjarfræðsla hefur færst mjög í aukana“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

„Með þessu móti viljum við hjá Umhverfisstofnun auka aðgengi að okkar sérfræðingum og prufa nýjar leiðir í miðlun“, segir Elva Rakel Jónsdóttir, sviðsstjóri.

Sem sagt: Áherslur og árangur í mengunareftirliti,  miðvikudaginn 29. apríl kl. 13:00. Verum í sambandi!