Stök frétt

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnunar, Rangárþings-ytra og Náttúrufræðistofnunar Íslands unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir Friðland að Fjallabaki í samráði við ýmsa hagsmunaaðila. Drög að áætluninni hafa nú verið lögð fram til kynningar á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Til stóð að halda opinn kynningarfund um áætlunina en í ljósi aðstæðna í samfélaginu er þess í stað birt rafræn kynning sem nálgast má hér .  

Friðland að Fjallabaki var friðlýst árið 1979.   Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstæðar jarðminjar, fjölbreytt landslag, lífríki og ósnortin víðerni.  
Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Friðland að Fjallabaki er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við rétthafa lands og sveitarfélag og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins og auka vernd þess. Markmiðið með gerðinni er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins í sem bestri sátt. Áætlunin gildir til 10 ára. Henni fylgir aðgerðaáætlun til þriggja ára sem verður endurskoðuð árlega. 

Samráð er sem fyrr segir mikilvægur þáttur við gerð slíkra áætlana. Hvetur Umhverfisstofnun þá sem láta sig málefni friðlandsins varða til að kynna sér drögin og senda inn athugasemdir. Frestur til að skila inn ábendingum og athugasemdum er til og með 22. maí 2020.

Hægt er að skila inn ábendingum og athugasemdum með því að senda tölvupóst til Umhverfisstofnunar á netfangið ust@ust.is, eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Frekari upplýsingar veita Hákon Ásgeirsson (hakon.asgeirsson@ust.is), Aron Geir Eggertsson (aron.eggertsson@ust.is) og Hildur Vésteinsdóttir (hildurv@ust.is) í gegnum tölvupóst eða í síma 591-2000/591-2134.