Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Síldarvinnsluna hf. Neskaupstað fyrir fiskimjölsverksmiðju sína en rekstraraðili hefur áform um aukna afkastagetu hennar.

Tillagan gerir ráð fyrir að rekstraraðila verði heimilt að framleiða fiskimjöl og lýsi með tveimur vinnslulínum á athafnasvæðinu. Heildarafköst eru að hámarki allt að 2.380 tonn af hráefni á sólarhring og verksmiðjan verður rekin með tveimur vinnslulínum.

Starfsleyfisumsókn fyrirtækisins er til komin vegna áforma sem eru um stækkun fiskimjölsverksmiðjunnar að Naustahvammi 67-69 í Neskaupstað. Mál vegna framkvæmdarinnar fékk meðferð hjá Skipulagsstofnun til ákvörðunar á matsskyldu og í úrskurði hennar frá 14. janúar 2019 kom fram að á „ grundvelli fyrirliggjandi gagna [sé] það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framleiðsluaukning fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar, Neskaupstað sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Því skal framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.“

Tillaga að starfsleyfi ásamt umsóknargögnun frá rekstraraðila verður aðgengileg á vefsíðu Umhverfisstofnunar á tímabilinu 28. maí til og með 25. júní 2020 og gefst á þeim tíma tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfisins verður tekin. Ef óskað verður eftir kynningarfundi fyrir almenning vegna auglýsingar starfsleyfistillögunnar mun Umhverfisstofnun athuga möguleika á því.

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 25. júní 2020. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tengd skjöl:
Starfsleyfistillaga
Almenn umsókn um starfsleyfi
Ákvörðun um matsskyldu